150. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2020.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Stærsta spurningin núna hlýtur að vera um atvinnumálin. Atvinnusköpunin mun hanga á því hversu hratt og vel okkur mun ganga að vinna okkur upp úr þeirri stöðu sem við okkur blasir, upp úr þessum alvarlegu efnahagslegu þrengingum. Hvert er þá hlutverk ríkisins í atvinnusköpuninni? Á einkamarkaðnum verður hlutverkið fyrst og fremst að liðka fyrir og sömuleiðis að vera ekki fyrir. Lækkun á tryggingagjaldinu er sennilega stærsta og þýðingarmesta skrefið sem ríkisstjórnin getur tekið núna til að örva atvinnulífið. Lækkun tryggingagjalds fjölgar störfum og hefur jafnframt þau augljósu áhrif að fækka þeim sem þurfa að reiða sig á atvinnuleysisbætur og um leið að draga úr álagi á Atvinnuleysistryggingasjóð. Það skiptir máli að við skiljum og að við séum læs á það hvað atvinnuleysi getur kostað okkur sem samfélag, sér í lagi ef það verður útbreitt og ef það verður langvarandi. Birtingarmyndir langvarandi atvinnuleysis eru flestar hverjar alvarlegar.

Hvert er hlutverk ríkisins á hinum opinbera markaði? Þar má núna nýta tækifærið. Þar má flýta og þar má fjölga tímabærum verkefnum og framkvæmdum. Þar má jafnframt ráða fólk þar sem skortur hefur verið á starfsfólki. Til að örva hagkerfið, ýta undir atvinnusköpun og ýta undir verðmætasköpun þurfum við líka að auka verðmætaskapandi innviðafjárfestingar. Fjárfestingarþörfin þar hleypur á hundruðum milljarða og þar eru auðvitað mikil sóknarfæri. Við eigum sömuleiðis að auka fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum. Það mun skapa störf og auka útflutningstekjur þjóðarinnar til framtíðar.

Hlutverk ríkisins er að liðka fyrir og skapa jákvætt hvataumhverfi sem styður atvinnuuppbyggingu. Það hefur sjaldan verið mikilvægara. Við þurfum að skilja að það getur kostað okkur núna að taka smærri skref. Það getur reynst okkur dýrkeypt. Raunverulegu sóknarfærin liggja í atvinnusköpuninni og hún verður svarið um það hvernig lífsgæði þjóðarinnar verða og hvort við verðum samkeppnishæf til framtíðar.