150. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2020.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að taka vel í beiðni mína um orðaskipti núna. Tilefnið er ágæt grein hans í Morgunblaðinu í morgun. Ég get tekið undir margt af því sem þar kemur fram, eins og gjarnan þegar hv. þingmaður kveður sér hljóðs, margt en ekki allt. Við stöndum nú frammi fyrir gríðarlegum áskorunum í miðju Covid-fárinu. Verkefni stjórnvalda eru í grófum dráttum tvenns konar, annars vegar að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr skaða efnahagssamdráttarins, hrunsins, á fólk og fyrirtæki og hins vegar að búa í haginn fyrir framtíðina með uppbyggingu og endurreisn, eins og þingmaðurinn nefnir réttilega í grein sinni.

Þjóðarleiðtogum og viðskiptafrömuðum víða um heim verður tíðrætt þessa dagana um að við megum búast við breyttri heimsmynd þegar hlutir komast aftur í fastar skorður. Það hvernig okkur muni farnast sem þjóð til lengri tíma í þeim veruleika fer vissulega eftir því hvernig við tökumst á við núverandi stöðu og ekki síður eftir því hvernig við aðlögum okkur nýjum veruleika. Í þessu ljósi stungu lokaorð í grein hv. þingmanns í stúf, að mínu mati, við annars ágæt skrif, um að í ljósi núverandi stöðu eigi stjórnmálamenn ekki að ræða stjórnarskrárbreytingar, ekki Evrópusambandsaðild og ekki aðrar róttækar umbyltingar á þjóðfélagsgerðinni.

Ef núna, á þessum umbrotatímum þar sem við erum mögulega að kveðja veröld sem var að einhverju leyti og horfa fram á breytta heimsmynd, er ekki tími til að uppfylla óskir þjóðarinnar um tilteknar breytingar á stjórnarskránni okkar sem lúta að jöfnun atkvæðisréttar og tímabundnu auðlindaákvæði, hvenær eru þá þeir tímar? Ef staða okkar innan Evrópu, kostir og gallar aðildar að Evrópusambandinu þar með taldir, er ekki mikilvægt innlegg í kortlagningu okkar á stöðunni og áskorunum í ljósi breyttrar heimsmyndar, hvenær þá? Ég spyr í ljósi þessarar greinar hvort það sé mat hv. þingmanns að sá tími sé aldrei.