150. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:52]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þessu frumvarpi um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta er gert ráð fyrir því að aðilar, og þá sérstaklega ríkið, fái auknar heimildir til að taka upp eldri mál þar sem því hefur láðst að gera kröfur eða ríkið ekki haft þær nægilega ríkar og að hugsanlega séu þarna einhverjar landræmur eigendalausar eða a.m.k. ekki búið að úrskurða um þær svo fullnægjandi sé talið.

Í frumvarpinu er einnig að finna heimildir til óbyggðanefndar til að taka til meðferðar almenninga stöðuvatna og landsvæði utan strandlengju meginlandsins. Þar hitta menn fyrir landeigendur sem telja gróflega gengið á rétt sinn og eru hugsi yfir að ríkið ætli að standa í ágreiningi út af skilningi á eignarrétti þessara svæða, hversu víðtækur hann sé, t.d. í netlögum, og hvar netlögin eru yfirleitt. Hér er ætlunin að óbyggðanefnd verði falið að hleypa öllu í bál og brand gagnvart þeim sem eiga jarðir sem liggja að sjó og vötnum með tilheyrandi kostnaði sem nægur er fyrir.

Miðflokkurinn segir nei í þessu máli.