150. löggjafarþing — 98. fundur,  6. maí 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ítreka að markmið þess frumvarps sem hér er til afgreiðslu er að ekki verði áfram á landinu svæði sem hulin eru móðu að því er varðar eignarréttindi yfir þeim. Þetta mál hefur verið tekið til mjög vandlegrar umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og ég þakka nefndinni fyrir þá umfjöllun sem hún hefur átt um málið þar sem segja má að farið hafi verið ítarlega ofan í hverja grein, enda byggir málið á lögunum um þjóðlendur sem auðvitað hafa lengi verið til umræðu í samfélaginu. Ég er sannfærð um að þessu markmiði verður einmitt náð með samþykkt þessa frumvarps og tel að vel hafi verið vandað til verka, bæði við undirbúning þess og af hálfu þingsins.

Ég segi já við frumvarpinu og tel það töluverða réttarbót í viðkvæmum málaflokki.