150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

verðbólguspár.

[10:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú er að koma í ljós hverjir eru í forgangi hjá þessari ríkisstjórn. Öryrkjar fá hungurlús, 20.000 kr., þeir þurfa bara að herða sultarólina. Síðan er verið að ráðast á unglinga og eldri borgara sem eru búnir að spara sér til að fara í frí. Þeir eiga gefa eftir fjármuni afturvirkt til ferðaskrifstofa. Við erum með stórfurðulegar sektargreiðslur þar sem við sektum þá sem eru með 200.000 kr. útborguð laun um 80.000 kall, en gerum það sama fyrir þann sem er með 800.000 kr. Þeir sem eru á hæstu launum geta brotið af sér fjórum, fimm, sex, sjö sinnum oftar áður en þeir komast í sömu spor og þeir sem á lægstu launum eru. En svo erum við að hjálpa fyrirtækjum. Það stendur ekkert á því að hjálpa fyrirtækjunum en heimilin, nei.

Og hvernig er staðan nú? Það var sagt að við þyrftum engar áhyggjur að hafa af verðbólgu. En staðan er sú að við þurfum að hafa miklar áhyggjur af verðbólgu. Nýjasta spá Seðlabankans er 1,4% verðbólga. Ef við tökum bara síðustu spá sem var ekki nema 0,10%, en það endaði í 0,5%, fimm sinnum meira. Þá er Seðlabankinn að spá núna 7% verðbólgu. Og hvað þýðir þetta á mannamáli? Hagstofan reiknar vitlaust, það er verið að reikna verðbólgu af ferðum en það var enginn að fara í ferðalög. Og af hárgreiðslu, það var enginn að fara í hárgreiðslu á þeim tíma en allt var þetta tekið inn í, rangar tölur. Þær notaðar til að ná af heimilum 20–30 milljörðum. Þetta þarf bara að gera fimm sinnum eða tíu sinnum þá er búið að ná af heimilum björgunarpakka ríkisstjórnarinnar upp á 200–300 milljarða. Er þetta það sem verið er að stefna í?

Ég spyr: Hvernig væri nú að hæstv. fjármálaráðherra sæi til þess að Hagstofan, það er mannanna verk að reikna út verðbólgu, geri þetta rétt?