150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

breyting á útlendingalögum.

[10:59]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Fólk á flótta og fólk í leit að vernd. Í gærkvöldi var hér til umræðu frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um útlendingamál. Frumvarpið er að mestu óbreytt frá upphaflegu frumvarpi sem þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, lagði fyrst fram í samráðsgátt. Þar er fjallað um möguleika fólks á alþjóðlegri vernd á Íslandi og möguleika stjórnvalda til að vísa þessu sama fólki burt. Í kjölfar umræðunnar í gærkvöldi myndi ég vilja beina spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra.

Rauði þráðurinn í frumvarpinu er að styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar. Í samhengi hlutanna hér held ég að það hljóti einfaldlega að þýða að þeir sem hafa fengið inni einhvers staðar annars staðar, hvar sem það nú er, eigi ekki skjól hér. Engu skiptir hvar það er, í hvaða löndum það er eða við hvaða aðstæður það er og hvaða aðstæður bíða fólks þar. Það er einfaldlega þannig að mjög lítið er á bak við þann merkimiða að hafa t.d. fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi og það að halda því fram að það sé raunveruleg vernd fyrir fólk sem sent er út í vonleysi er ekki góð pólitík.

Allt er þetta sett fram undir formerkjum skilvirkni og einfaldari málsmeðferðar. Þótt það sé vissulega ágætt og alltaf kappsmál að stytta málsmeðferðartíma leyfi ég mér að fullyrða að það er ekki biðtíminn sem hefur truflað almenning hér. Styttri málsmeðferðartími er ekki stóri sannleikurinn þegar niðurstaðan verður vond og jafnvel ómannúðleg. Það er ekki það sem kallað hefur verið eftir. Við höfum séð sorglegar sögur fólks, fullorðinna og barna, sem sækja skjól á Íslandi og það er fólk sem raunverulega þarf á þessari vernd að halda. Þetta mál er að mínu viti skref til baka.

Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra: Er einhugur um þetta mál í ríkisstjórninni? Nýtur hæstv. ráðherra stuðnings samráðherra sinna úr öðrum flokkum? Er samstaða um málið í ríkisstjórnarflokkunum þremur?