150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:02]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og vona svo að það gangi eftir. Annað sem ég velti fyrir mér í þessu er það sem mér finnst vanta og ber að þakka eða ekki, það er, því miður, eins og ég hef kallað það hungurlús, 20.000 kr. eingreiðsla til öryrkja, og það hefur ekki komið neitt fram til eldri borgara sem eru í slæmri stöðu.

Það er annað í þessu sem sýnir bara hversu nauðsynlegt er að veita meira til þeirra sem verst hafa það, eins og öryrkja, að bara í mars og apríl hefur umsóknum hjá Hjálparstofnun kirkjunnar fjölgað um 60%. Það sýnir hvernig ástandið er og hversu grafalvarlegt það er, því miður, eins og staðan er í dag, að á sama tíma og við erum að moka fjármunum í fyrirtæki sem sum eru að misnota aðstöðu sína, þá erum við ekki að hjálpa þeim sem mest þurfa á að halda og svelta hreinlega í dag. Mér finnst sorglegt að við skulum ekki hafa getað — ég veit að beðið var um hærri eingreiðslu upp á 100.000 kr. kannski eða eitthvað en ekki var tekið tillit til þess. (Forseti hringir.) Ég spyr: Er ekkert fram undan í því að hjálpa þeim og sjá til þess að þeir verst settu fái aðeins meira?