150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Áður en Covid-19 barst til Íslands var ákveðið að verja 400 milljónum til fjölmiðla á fjárlögum, þ.e. fyrir Covid. Síðan í seinni aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til að mæta Covid-áfallinu var tilkynnt af hálfu ríkisstjórnarinnar að það ætti að setja 350 milljónir til fjölmiðla til að mæta því tekjutapi sem fjölmiðlar verða fyrir vegna faraldursins. Þetta var ánægjuleg yfirlýsing en svo þegar maður rýndi gögnin, rýndi fjáraukann sem hér er til umræðu, þá voru 0 kr. til fjölmiðla. Nú kemur í ljós að meiri hluti nefndarinnar ætlar ekki að bæta við þessum 350 millj. kr. eins og hefði mátt skilja að væri viðbót við 400 milljónirnar heldur stendur til, eins og ég skil það, að endurnýta þessa peninga, þessar 400 milljónir sem áttu að fara í allt annað hjá fjölmiðlum. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann, formann nefndarinnar: Hvernig stendur á því að við erum ekki að uppfylla það sem ríkisstjórnin sjálf var að stæra sig af þegar hún kynnti þennan aðgerðapakka, að hér ætti að setja sérstaka fjármuni til fjölmiðla (Forseti hringir.) vegna Covid-faraldursins. Mér finnst menn vera að blanda saman tveimur atriðum sem þarf virkilega að skýra.