150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti aðeins fyrir mér heildarsýninni í þessum fjáraukalögum og fyrri fjáraukalögum og næstu fjáraukalögum. Hvers vegna eru lokunarstyrkir 2,5 milljarðar en ekki 2 eða 3 eða 5 eða 1? Hvers vegna eru framlög til geðheilbrigðismála og fjarþjónustu 540 millj. kr., sem er nokkuð nákvæm tala í samhengi fjárlaga, en ekki 1 milljarður eða 500 milljónir eða eitthvað annað? Spurning sem ég spurði á fyrsta fundi um þetta var: Hvaða vanda mætir hver aðgerð? Hver er væntur viðsnúningur vegna þeirra aðgerða sem er verið að stinga upp á? Eins og venjulega komu engin svör við því. Það finnst mér vera dálítið einkenni þessa fjárauka og fyrri fjárauka, hálffálmkenndar aðgerðir sem er farið í án þess að þingið sé neitt sérstaklega látið vita af því af hverju farið er í þessa aðgerð en ekki hina og af hverju það er þessi upphæð en ekki einhver önnur. Þá velti ég fyrir mér ábyrgð og eftirliti fjárlaganefndar í kjölfarið. Hver er hún?