150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar mikilvægu vangaveltur. Ég myndi þó ganga ekki svo langt að segja að hér væri um einhverja friðþægingu að ræða. Við vitum að afleiðingar faraldursins hafa mikil áhrif þegar kemur að þessum þætti og margir sem finna fyrir auknum kvíða, þunglyndi og einangrun og þar fram eftir götunum. Þannig að þörfin hefur aukist, við finnum fyrir því og þess vegna viljum við stíga inn með aukið framlag. Munum við ná utan um það hversu mikil þörfin er og ná utan um vanda allra í einu? Nei, alveg örugglega ekki. En ég held að við séum að stíga mjög þarft og mikilvægt skref með því að setja þessa fjármuni til að efla þennan þátt.