150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. 250 millj. kr. inn í þessa hrikalegu stöðu hrökkva skammt, ég þakka hv. þingmanni fyrir að draga það hér fram. Við vorum að ræða sveitarfélögin og kom það mjög skýrt fram hjá fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga að staðan er mjög misjöfn eftir því hvert vægi atvinnugreinarinnar er á hverju svæði fyrir sig. Meginástæðan fyrir því að þessi hrikalega staða á Suðurnesjum hefur teiknast upp blasir auðvitað við. Ég tel fullvíst að það verði sérstakt átak þar sem og á fleiri stöðum þar sem vægi ferðaþjónustunnar er jafn mikið og raun ber vitni. Það þarf þá að fara fram frekari greining á því og hvernig við erum að vinna okkur í gegnum þetta skref fyrir skref. Ég held að það sé nokkurn veginn svarið sem ég treysti mér til að gefa hér en ég held að það verði að skoða hvernig staðan er hjá sveitarfélögunum á öllu landinu. Þetta er eitt af því sem samráðsnefnd sveitarfélaga og ríkis verður að fara í gegnum.