150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[19:55]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningu hans. Nú vill svo til að bráðum heyrir saga annars af þeim ágætu sjóðum sem lagðir voru niður, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, fortíðinni til. Ég þekki þann sjóð ágætlega, við vorum jafnaldrar. Ég þekki líka ágætlega til AVS-sjóðsins og þeirra verkefna sem hann hefur gripið til. Ég flutti um það ræðu í umræðum um þetta þingmál fyrr á þessum þingvetri að ég tel þetta að mörgu leyti vera gæfuspor. Það er þannig frá því gengið, í afgreiðslu meiri hluta atvinnuveganefndar, að tekið sé utan um þau verkefni sem hv. þingmaður nefnir hér sem hafa skipt máli. Ég vil bara nota þetta tækifæri, virðulegur forseti, til að segja að verk Framleiðnisjóðs landbúnaðarins á sínum tíma, þegar við tókumst á við mikla offramleiðslu, skiptu gríðarlega miklu máli. En staðreyndin er hins vegar sú að við höfðum á mörgum undanförnum árum verulega dregið úr framlögum til sjóðsins þannig að hann var ekki lengur sá kraftmikli sjóður sem hann var í árdaga. Hefði verið réttara að beina fjármunum inn í þá sjóði óbreytta? Ég er ekkert endilega viss um að það hefði verið hin rétta aðferð. Við erum þarna að reyna að samþætta fleiri krafta sem felast í verkefnum sem eru til sjávar og sveita og skapa þannig samlegð og kraft út úr þessum sjóðum.

Varðandi grunnrannsóknir og ýmsar rannsóknir sem Framleiðnisjóður hefur fjármagnað þá getum við tekið þá umræðu dýpra og seinna. En rétt eins og með grunnrannsóknir, sem meiri hluti fjárlaganefndar er að leggja áherslu á í breytingartillögum sínum, eru grunnrannsóknir í landbúnaði og í sjávarútvegi gríðarlega mikilvægar. Ég myndi leggja þá tillögu til hv. þingmanns, þegar hann kemur í sitt seinna andsvar hér, hvort við eigum líka að velta fyrir okkur hvernig atvinnugreinin sjálf getur stutt við grunnrannsóknir og rannsóknir á sínu sviði.