150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[20:00]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nálgast hugleiðingar hv. þingmanns með því að segja að þær eigi fyllilega rétt á sér. Við getum hins vegar ekki sagt að í grunninn verði einhver átök um það þegar þessu einskiptisframlagi lýkur. Sjóðirnir hafa verið fjármagnaðir með ákveðnum hætti og að hluta til mun það standa til lengri tíma og mögulega um það samið í samningum, t.d. við bændur. En það sem mér finnst vera helsta sóknarfæri hins nýja Matvælasjóðs er einfaldlega sú staðreynd að ein helsta auðlind okkar er matvælaframleiðsla úr hvorri greininni sem hún er, hvort sem það er sjávarútvegur eða landbúnaður, og síðan iðnaður henni tengdur. Það eru einfaldlega mikil sóknarfæri í því, hv. þingmaður, að virkja þessa krafta saman þannig að við höldum utan um þá virðiskeðju, allt frá þeirri auðlind sem við erum að nota, hvort sem það er grasið sem sprettur eða sjórinn í kringum landið, og síðan út í gegnum vinnsluferlið þannig að við séum að búa til meiri verðmæti úr þeim matvælum sem við erum að framleiða og stuðla þar með að meiri nýsköpun. Það eru stóru sóknarfærin sem við höfum og þess vegna er það ákaflega jákvætt skref í mínum huga að sameina þessa sjóði.