150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[20:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Hér fjöllum við um fjáraukalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, annan fjárauka í Covid. Fjárauki, já, það er lagafrumvarp þar sem fjárveitingavaldið, Alþingi Íslendinga, tekur ákvörðun um hvernig ráðstafa á opinberu fjármagni. Ekki má stofna til opinberra útgjalda án heimilda. Vegna aðstæðna þarf nú að afgreiða fjárauka á færibandi, kannski ekki vikulega en ótt og títt svo hægt sé að bregðast við ástandinu. Hér er um að ræða 13 milljarða innspýtingu í kerfið okkar til að bregðast við því ófremdarástandi sem ríkir. 13 milljarðar eru miklir peningar, ekki nóg, en miklir fjármunir, sér í lagi þegar þetta er ein af fjölmörgum aðgerðum sem við erum að fara í.

Í gær áttum við hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Oddný G. Harðardóttir, og hv. þingflokksformaður Framsóknar og formaður hv. fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, hér orðastað um það hversu mikilvægt það væri að fá fjármálaráð til að ræða við nefndarmenn í hv. fjárlaganefnd og hv. efnahags- og viðskiptanefnd um það hvað væri eiginlega að gerast, við hvað væri að fást, hvernig fjármálaráð sæi fyrir sér hvað væri að gerast í þessu fordæmalausa ástandi. Fjármálaráð á að tryggja að fram fari hlutlægt mat á stefnumörkun í opinberum fjármálum. Fjármálaráð skipað sérfræðingum, fagfólki, er sjálfstætt í störfum sínum. Ríkisstjórn Íslands hefur verið skynsöm að fela sérfræðingum að bregðast við heilsufarshættu vegna Covid-veiru en þegar kemur að efnahagsaðgerðum óttast ég að lítið sé verið að leita til sérfræðinga, þar sem lítið er hlustað og lítil yfirsýn. Ég óttast, frú forseti, að sviðsmyndagreiningar, greiningar á áhrifum séu í algjöru skötulíki. Þetta hefur því miður birst okkur of víða hér í þingi og í opinberri umræðu. Því miður magnast þessi tilfinning upp eftir því sem ég hlusta á fleiri ræður stjórnarliða, en þó ber að benda á að í dag, í 2. umr. sem er meginumræða um þennan fjárauka þar sem er verið að dæla peningum út í kerfið til bjargar, hafa einungis þrír stjórnarliðar treyst sér til að fjalla um björgunaraðgerðirnar. Það var áberandi í 1. umr. hversu stjórnarþingmenn virtust illa átta sig á aðgerðapakkanum, enda höfðu þeir litla kynningu fengið á því sem var í gangi. Ekki er þeim boðið að borðinu þegar kemur að skipulagningu og ekki einu sinni öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Ég sakna líka í allri þeirri vinnu sem á sér stað vegna þessa Covid-áfalls almennrar umræðu um það hvaða stefnu við viljum taka, hvernig samfélag við viljum byggja. Hvernig viljum við hafa þetta? Hvað er í gangi? Hvert eruð þið að fara? Engin slík umræða er í boði hér í þingsal eða annars staðar, hvorki meðal stjórnarliða, meðal þingmanna almennt né ríkisstjórnarinnar. Það eru vissulega fordæmalausir tímar og margt sem þarf að gera. Við verðum einhvern tímann að gefa okkur tækifæri til að setjast niður og ræða saman um það hvernig land við viljum byggja, hvernig við ætlum að hafa þetta. Við getum ekki bara tekið opinbert fé og sáldrað því út án nokkurrar yfirsýnar.

En fjáraukinn, við erum hér með þessa milljarða sem eiga að fara í ýmsar áttir. Áður en lengra er haldið vil ég segja að ég mun greiða atkvæði með fjáraukanum og ég mun greiða atkvæði með breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Þar eru ýmsar góðar hugmyndir, aðrar minna góðar, ég myndi kannski fara öðruvísi að í einhverjum þáttum, en ég mun greiða atkvæði með.

Mig langar að ræða það sem er ekki í þessum tillögum, ekki breytingartillögum og ekki í tillögum ríkisstjórnarinnar. Við skulum byrja á heilbrigðiskerfinu, frú forseti. Nú er það svo að heilbrigðiskerfið okkar hefur um árabil verið verulega vanfjármagnað. Það er vanfjármagnað ef miðað er við önnur sambærileg lönd, vanfjármagnað borið saman við OECD-ríki, vanfjármagnað ef miðað er við launastrúktúr í landinu og fullkomlega vanfjármagnað þegar kemur að þeim verkefnum sem því ber að sinna. Svo kom veiruskrattinn og þá þurfti beinlínis að ýta öllum aðgerðum og verkefnum sem ekki voru beinlínis lífsnauðsynleg til hliðar og fara í miklar aðgerðir til að geta brugðist við Covid-veirunni með þeim hætti sem nauðsynlegt var til bjargar mannslífum og þar hefur heilbrigðisstarfsfólk á Íslandi unnið algjört kraftaverk. Því ber að fagna og fyrir það ber að þakka.

Í upphafi var stjórnendum heilbrigðisstofnana uppálagt að halda saman beinum kostnaði vegna Covid-aðgerða og skila þeim tölum einu sinni í viku, frú forseti, til heilbrigðisráðuneytisins og þeim var lofað að þetta yrði allt greitt. Fyrir tæpum mánuði, eða þann 17. apríl sl., var kostnaður heilbrigðisstofnana, sem eru vanfjármagnaðar, við skulum muna það, vanfjármagnaðar heilbrigðisstofnanir, kominn upp í 3,5 milljarða íslenskra króna, 3,5 milljarða fyrir tæpum mánuði. Þetta voru því fyrirséðar kostnaðartölur þegar fjáraukafrumvarp hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kom fram. Engu að síður var tekin ákvörðun um það af hæstv. ráðherra að gera ekkert með þennan viðbótarkostnað sem stofnanirnar hafa nú þegar orðið fyrir. Hvernig þær eiga að fara að því, sér í lagi minni stofnanir, að borga reikninga um mánaðamót og tryggja starfsfólki laun er algerlega óvíst og þeim rekstraraðilum sem koma að þessum stofnunum algjörlega á huldu.

Í störfum mínum í hv. velferðarnefnd ákvað ég að hringja hringinn í kringum landið og spyrja: Hvernig ætlið þið að fara að þessu? Ef við tökum sem dæmi Heilbrigðisstofnun Vestfjarða sem þurfti að ráða inn fimmtíu bakverði, þetta er þriðjungsaukning á öllu starfsfólki sem þar starfar, vissi forstjórinn ekki hvernig hann ætti að fara að því að borga þeim laun. Fjármálaskrifstofa ríkisins sem greiðir út launin hefur enga heimild til að borga laun. Hvernig á hún að gera það þegar er engin heimild? Það verður að taka þetta bara af einhverjum öðrum rekstri, sleppa því að borga símann, sleppa því að borga matinn. Þetta er ákvörðun fjármálaráðherra og þetta er ákvörðun fjárlaganefndar, sem ekki tók tillit til þessa í afgreiðslunni núna, að skilja þetta bara eftir fyrir framtíðina til að finna út úr. 3,5 milljarðar voru fyrir tæpum mánuði komnir til vegna beinna aðgerða Covid. Og það er ekkert brugðist við þessu. Mér þykir það, frú forseti, mjög alvarlegt. Mér þykir alvarlegt að við séum að ala á ótta þeirra sem eru ekki að veikum mætti heldur af fullri hörku að reyna að reka heilbrigðisstofnanirnar okkar, en við virðum þær ekki viðlits þegar kemur að svona björgunaraðgerðum. Hvernig ríkisstjórnin sér fyrir sér að láta þetta ganga upp veit ég ekki. Það er ekkert hugsað út í þetta.

Þá langar mig að nefna álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks sem allir, hver einn og einasti stjórnarþingmaður og ráðherra í ríkisstjórn, felldu hér í þingsal í síðustu umferð. Nú hefur komið inn tillaga um að koma með álagsgreiðslur en það bara fyrir suma heilbrigðisstarfsmenn. Stjórnarandstaðan lagði til að við færum í þessar álagsgreiðslur sem eru að fordæmi nágrannaríkja. En nú er það ákveðið, skorið þannig við nögl, að framlínufólk við sjúkraflutninga, lögreglu, heilbrigðisstarfsfólk á hjúkrunarheimilum er hreinlega skilið eftir. Þetta er bara fyrir fólk sem er inni á deildunum í Covid-búningunum, virðist vera. Af hverju þessi ákvörðun var tekin er alveg óskiljanlegt, sérstaklega þeim sem starfa t.d. á hjúkrunarheimilum og fást við Covid-sjúklinga. Það fólk fær ekki álagsgreiðslur frá hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmönnum.

Við leggjum til í breytingartillögu að þetta verði aukið til að jafnt gildi um okkar framlínufólk. Ég vona að stjórnarþingmenn fái leyfi til að greiða atkvæði, þótt ekki væri nema með einni tillögu stjórnarandstöðunnar, af því það er jú sama hvaðan gott kemur. Það á að styðja góð mál, þetta er gott mál. Þessar greiðslur munu ekki setja landið á hliðina, svo mikið er víst. Ég vil einnig nefna fleiri breytingartillögur sem við í Samfylkingunni leggjum til. Þær varða grunnatvinnuleysisbætur, hækkun þeirra svo að þær nálgist lágmarkslaun, hækkun tekjutryggingar atvinnuleysisbóta og síðast en ekki síst þá tímabundnu aðgerð, frú forseti, að leyfa námsmönnum sem geta ekki með nokkru móti fengið vinnu í sumar, ekki í neinum af þeim 3.000 störfum sem er verið að búa til, að fá atvinnuleysisbætur. Já, ríkisstjórnin ætlar að fjölga sumarstörfum fyrir námsmenn, það er mjög gott, enda mun ég vera á grænu þá, ég mun styðja þá aðgerð, að sjálfsögðu. En, frú forseti, þetta eru 3.000 störf sem ná ekki einu sinni að grípa bara námsmenn við Háskóla Íslands sem eru án atvinnu í sumar, ekki einu sinni við einn háskóla af þeim fjölmörgu háskólum sem við erum með. Bara nemendur við Háskóla Íslands sem eru ekki komnir með neina vinnu og sjá ekki fram á að fá neina vinnu eru 5.000. Þá eigum við eftir að tala um alla þá námsmenn við Listaháskólann, þar sögðust bara 20% námsmanna komnir með vinnu í sumar, sem sæju ekki fram á að fá neina vinnu. Þá eigum við eftir að tala um alla þá námsmenn sem eru við Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst og alla framhaldsskólanema. Þeir sem eru undir 18 ára eru jú vissulega eða eiga að vera á framfæri foreldra sinna, en foreldrum ber engin skylda til að framfleyta þeim sem eru yfir 18 ára.

Svo megum við ekki gleyma að á Íslandi búa ekki allir við góð kjör. Það eiga ekki allir námsmenn á Íslandi möguleika á að fá húsnæði og fæðu fyrir sig og börnin sín heima hjá foreldrum sínum á meðan á þessu roki stendur. Það er bara ekki þannig. Ég trúði ekki mínum eigin augum í dag þegar tillögur voru felldar af ríkisstjórninni um að hleypa ekki þeim námsmönnum, bara þeim námsmönnum sem fá ekki vinnu, ekki þessi sumarstörf sem er verið að fara í, inn í okkar sameiginlega kerfi til bjargar þeim. Þetta er ávísun, frú forseti, á að fólk hrökklist úr námi, sérstaklega þeir sem eru í viðkvæmustu hópunum. Þetta er tækifæri til að skapa hér mikinn ójöfnuð af því að námsmenn þurfa líka að borga leigu og sjá börnum sínum farborða.

Já, frú forseti, ég tek undir orð hv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Haraldar Benediktssonar, sem sagði í ræðu fyrr í kvöld það skipta máli í hvað verið er að setja fjármagn. En við skulum líka taka eftir í hvað ekki er verið að setja fjármagn og hvað er beinlínis fellt af þeim tillögum sem eru lagðar fram til góðra mála. Við skulum muna það hvaða hópar fá ekki skjól hjá ríkisstjórninni og stjórnarliðum.