150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[21:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Líkt og ég fór yfir í ræðu minni eru tillögurnar frá meiri hluta fjárlaganefndar unnar í ákveðinni samvinnu og fleiri hafa komið að því að móta þær en einungis við sem erum í meiri hlutanum, þó svo að við berum auðvitað, má kannski segja, meginábyrgð á þeim, en líkt og kom fram í máli hv. þingmanns segist hann styðja þær.

Ég hef hreinlega efasemdir um tryggingagjaldsleiðina og hvort hún muni endilega ná því markmiði sem helst yrði á kosið. Annars veit ég að það hefur meira verið fjallað um þessi mál í efnahags- og viðskiptanefnd og þar hefur þetta verið rætt og leitt til ákveðinna lykta þar, hvað ég best veit.

Hvað varðar það að útvíkka átak í starfsúrræðum og láta það ná einnig til einkamarkaðarins hef ég einnig efasemdir um þá leið og velti fyrir mér hvernig ætti þá að útfæra það þannig að við getum tryggt að fyrirtæki segi ekki upp starfsfólki sem er nú þegar í vinnu til að ráða nýtt starfsfólk inn sem væri þá að hluta til, eða að miklu leyti í rauninni, á launum á vegum ríkisins. Í fljótu bragði sé ég ekki alveg hvernig sú leið ætti heldur að virka sem skyldi.