150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[22:33]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þetta eru breytingar frá stjórnarandstöðunni sem setja ekkert á hliðina. Tillagan lýtur að því að setja fjármuni í nýsköpun, m.a. í Tækniþróunarsjóð og Kvikmyndasjóð. Það er með ólíkindum að þingheimur treysti sér ekki til að setja fé í þessa tvo lykilsjóði. Kvikmyndaiðnaðurinn hefur verið að kalla eftir auknum stuðningi frá stjórnvöldum og ekki fengið. Sú upphæð sem rennur til endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar lækkaði um 30% á milli ára í síðustu fjárlögum en í þeirri tillögu sem við greiðum líka atkvæði um eru aukin framlög til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sem maður hefði haldið að væri stuðningur við. Mér sýnist þó svo ekki vera.

Þarna er tillaga um framlög til sóknaráætlana landshluta sem maður hefði haldið að sumir þingmenn gætu stutt. Allt kemur þó fyrir ekki. Þarna er lítil upphæð til Ungra frumkvöðla o.s.frv.

Þetta eru tillögur sem maður hefði haldið að á tímum neyðarástands væri hægt að sameinast um en eins og með allar aðrar tillögur stjórnarandstöðunnar sjáum við að hv. þingmenn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) fella allar okkar tillögur á sama tíma og við samþykkjum þeirra tillögur. Þetta er sorglegt, herra forseti.