150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

félagslegt öryggi ungs fólks.

[15:02]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í kjölfar hrunsins fyrir rúmlega áratug var gripið til fjölmargra úrræða sem áttu að bæta hag landsmanna. Leiðréttingin, eins og hún var kölluð, er dæmi um aðgerð stjórnvalda sem greiddi milljarðatugi til eldri kynslóða og eignafólks. Talað var um forsendubrest sem réttlætti þessa gríðarlegu eignatilfærslu en yngri kynslóðin fékk enga leiðréttingu. Sú kynslóð er enn að berjast við að geta fjárfest í húsnæði. Sú kynslóð er fyrsta kynslóð Íslendinga í áratugaraðir sem býr við lakari lífskjör en kynslóðin þar á undan. Leiðréttingin og niðurfelling skulda náði ekki til þessarar kynslóðar enda var hún ekki þátttakandi í því skuldakapphlaupi sem átti sér stað árin á undan. Í góðærinu sem nú hefur keyrt á vegg naut hún heldur engra fríðinda.

Forseti. Ég hef þungar áhyggjur af því að nú eigi enn og aftur að skilja unga fólkið eftir. Ég hef þungar áhyggjur af aðgerðaleysi stjórnvalda sem ég finn fyrir gagnvart félagslegu öryggi ungs fólks og að það muni leiða af sér enn dýpra kynslóðabil lífsgæða í landinu, að ungt fólk og þá sér í lagi námsmenn sem ekki fá notið úrræða stjórnvalda til jafns við aðra neyðist til að skuldsetja sig enn frekar og að ekki sjái fyrir endann á því.

Öryggisleysið sem unga kynslóðin býr við um þessar mundir er óásættanlegt, herra forseti. Þessi ríkisstjórn virðist staðráðin í að svara þessari kynslóð engu um framtíð sína í komandi efnahagslægð. Námsmenn sem sannarlega hafa orðið fyrir forsendubresti vegna áhrifa heimsfaraldursins fá engin svör um fjárhagslegt öryggi sitt nema kannski að þeim býðst að skuldsetja sig frekar með sumarnámslánum sem enginn bað um.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Ætlar hún virkilega að skilja ungt fólk eftir enn eina ferðina?