150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

félagslegt öryggi ungs fólks.

[15:04]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég held að það sé ástæða til að taka fram í upphafi að leiðréttingin sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í fyrirspurn sinni var í tíð fyrri ríkisstjórnar á árunum 2013–2016 þannig að hæstv. forsætisráðherra getur illa borið ábyrgð á henni. Hins vegar hafa margar þær aðgerðir sem núverandi ríkisstjórn hefur gripið til einmitt miðað að því að koma til móts við ungt fólk, m.a. vegna þess sem fram kom þegar við fórum í rannsókn á því hvernig lífskjör í landinu hafa þróast á árunum 1991–2017 og hefur nú verið uppfærð til 2018. Þar kemur fram að yngri kynslóðin hefur setið eftir þegar kemur að lífskjörum. Meðal annars þess vegna höfum við ráðist í aðgerðir til að hækka barnabætur og lengja fæðingarorlof. Í þinginu er frumvarp um Menntasjóð námsmanna sem snýst um að taka í raun og veru upp styrkjakerfi til námsmanna. Allar þær aðgerðir koma mjög til móts við ungt fólk.

Ef hv. þingmaður er hins vegar sérstaklega að ræða sumarið fram undan má benda á að nú þegar hefur verið gripið til aðgerða til að skapa 3.000 sumarstörf á vegum ríkis og sveitarfélaga sem ég vonast til að verði auglýst sem fyrst. Þau heyra undir félags- og barnamálaráðherra. Þá hefur sömuleiðis verið sett inn gríðarleg innspýting í Nýsköpunarsjóð námsmanna sem nam 80 millj. kr. en nemur nú 500 millj. kr. og mun skapa 500 ný störf á þeim vettvangi og uppi eru áform um sumarnám fyrir þá námsmenn sem geta nýtt það til að flýta námi sínu. Ég held hins vegar að við munum þurfa að taka stöðuna til að átta okkur á því hvort einhverjir lendi á milli skips og bryggju þrátt fyrir allar þessar umfangsmiklu aðgerðir og koma þá til móts við þann hóp námsmanna með einhverjum hætti. Ekki er hægt að segja annað en að töluvert hafi þegar verið (Forseti hringir.) undirbúið sem mun mæta mjög mörgum námsmönnum á komandi sumri.