150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

félagslegt öryggi ungs fólks.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hlýt að gera athugasemd við það orðalag hv. þingmanns sem segir að ríkisstjórnin telji sig vera að gera hluti, þegar ég fer yfir öll þau mál sem hafa verið afgreidd á þessu kjörtímabili og gagnast svo sannarlega ungu barnafólki og hefur verið barist fyrir árum, ef ekki áratugum, saman. Ég vitna þá sérstaklega í fæðingarorlofið og Menntasjóðsfrumvarpið og margt fleira. Hv. þingmaður verður að virða staðreyndir þegar hún kemur hér upp.

Hún lætur eins og það sé engin aðgerð að fara í 3.500 sumarstörf. Ég er nokkuð viss um að það er það sem flestir námsmenn vilja gera, þeir vilja eiga kost á starfi yfir sumarið og sérstaklega einhverju áhugaverðu starfi. Þegar hv. þingmaður lætur eins og það að fara í sumarnám séu ekki raunverulegar aðgerðir fer hv. þingmaður hreinlega ekki rétt með. Það sem ég sagði áðan er að síðan þarf auðvitað að ráðast í aðgerðir til að grípa þá sem lenda milli skips og bryggju í þessum aðgerðum. Þessi útfærsla liggur hjá (Forseti hringir.) félags- og barnamálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra og mér er kunnugt um að þau munu kynna nánari útfærslur í þessari viku.