150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

nauðungarsala.

762. mál
[17:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að koma þessu vel á framfæri. Mér þykir vænt um það. Ég vil ítreka það sem ég hef sagt um mikilvægi þess að þetta mál verði samþykkt. Í efnahagshruninu misstu ótrúlega margir, þúsundir Íslendinga, heimili sitt, íbúðarhúsnæði sitt, sem reynist mörgum enn þann dag í dag mjög erfitt, þeir hafa aldrei náð sér. Þetta hefur áhrif á andlega líðan fólks og við getum ekki horft upp á slíka hluti gerast aftur. Það voru mikil mistök að hafa ekki komið fram með frumvarp eins og þetta á þeim tíma. En við lærum af því. Ég vona líka að þetta mál fái skjóta afgreiðslu í nefndinni og menn sýni því almennan skilning og velvilja. Það er mjög mikilvægt. Ég sé ekki hvað ætti að standa í vegi fyrir því að svo mikilvægt mál sé samþykkt. Ég held að það hljóti allir að sjá að þetta á að vera hluti af þeim aðgerðapökkum sem hafa verið lagðir fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og við höfum verið að styðja, eins og ég nefndi áðan. Ég vona svo sannarlega að þetta mál verði samþykkt og það fái skjóta afgreiðslu.