150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

nauðungarsala.

762. mál
[18:08]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Forseti. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan er þetta mál nákvæmlega eins og mál sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra, setti fram og fékk samþykkt 2013. Þá gekk málið til allsherjar- og menntamálanefndar og ég legg til að svo verði aftur núna. Það tók ekki nema níu daga að samþykkja málið á sínum tíma. Það var lagt fram 10. desember og samþykkt 19. desember. Þannig að ef vilji er fyrir því hjá stjórnarmeirihlutanum, sér í lagi fyrst þetta var gert á sínum tíma og þetta er fordæmið og málið er eins, þá er hægt að afgreiða það mjög hratt þannig að ég vísa því aftur til hv. allsherjar- og menntamálanefndar, hv. formanns þar, Páls Magnússonar, og annarra nefndarmanna, að fara strax í að vinna málið, kalla eftir umsögnum og fara yfir umsagnirnar. Sama hvað á endanum verður gert við málið, þegar ríkisstjórnin telur að kominn sé tími til þess að stöðva nauðungarsölurnar þá er hægt að gera það mjög hratt. En ég vil líka minna á að eins mál, stöðvun nauðungarsölu, var samþykkt og lagt fram í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem Vinstri grænir og Samfylkingin stóðu saman að. Það var lagt fram sem frumvarp í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Allur fjórflokkurinn er búinn að leggja þetta til og fá samþykkt á Alþingi.

Málið verður sent til allsherjar- og menntamálanefndar. Það er hægt að afgreiða það hratt og vel. Ég vona að stjórnarmeirihlutinn og ríkisstjórnin sendi þau skýru skilaboð að við ætlum að vinna þetta hratt og vel og vera tilbúin að gera þetta strax af því að eins og hér er nefnt, fólk er þegar byrjað að missa vinnuna og stendur frammi fyrir nauðungarsölum. Margir hverjir geta ekki losað sig út úr því í dag í þessu ástandi. Þetta er brúin sem hægt er að byggja fyrir landsmenn sem missa annars heimili sín, að brúa þá yfir þetta Covid-ástand, fresta þessum nauðungarsölum tímabundið. Þannig að þegar við erum komin yfir versta ástandið og fólk getur farið að fóta sig aftur, þá geti það gengið af stað, haldið eignum sínum, haldið heimilum sínum, það er það sem þetta snýst um.