150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[19:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta fyrirspurn. Ég kom inn á það í ræðu áðan að þessi málaflokkur er náttúrlega viðkvæmur og sérstaklega þegar kemur að börnum. Ég tek heils hugar undir það. Við sjáum það bara í umræðunni í samfélaginu að þegar börn eiga í hlut þá skellur á ákveðin alda, fólk væntir þess að þau fái sanngjarna og góða málsmeðferð og ég styð það heils hugar. Hv. þingmaður spurði sérstaklega hvert viðhorf kristins manns er gagnvart þessu. Þá vil ég bara vitna í biskup Íslands sem sagði einmitt að skoða ætti málefni barna sérstaklega og ég styð það að sjálfsögðu. Við þurfum að fara sérstaklega yfir þann hluta málsins, að mínu mati. En að sama skapi minni ég á að það er mjög mikilvægt að þessi staðfesta ríki, þ.e. að fólk viti að hverju það gengur áður en það leggur í þá vegferð að sækjast eftir alþjóðlegri vernd, sem getur verið mjög erfið, þyrnum stráð o.s.frv. Ég lít líka svo á að það sé skylda okkar og stjórnvalda að koma þeim skilaboðum vel á framfæri hvert regluverkið er nákvæmlega vegna þess að ef við erum að fara að breyta sérstaklega út af því og veita t.d. ákveðnum aðila ríkisborgararétt í gegnum Alþingi, eins og við þekkjum að var gert, t.d. hvað varðar Albaníu, þá kom flóðbylgja af flóttamönnum í kjölfarið. Það þarf því að ríkja ákveðin staðfesta í þessum málaflokki og, eins og norsk stjórnvöld gerðu, þarf að koma því á framfæri við umheiminn hvernig regluverkinu er háttað. En þegar mál lýtur sérstaklega að börnum þá tek ég heils hugar undir það með hv. þingmanni (Forseti hringir.) að auðvitað þurfi að fara mjög varlega þegar kemur að því og fara vandlega yfir þau mál.