150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[20:35]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvar ég á að byrja en ég ætla að byrja á að segja að mér finnst ansi ómálefnalegt að hv. þingmaður segi hér að ég þurfi að fara í ráðuneyti mitt til að læra hvernig útlendingalöggjöfin er, og saki mig um að ljúga til um hvernig kerfið okkar er. Ég hef ávallt verið að tala um Dyflinnarmál, svara spurningum um Dyflinnarmál, eða ítrekað umræðu um hvert við erum að senda til baka þegar ég nefni að við sendum fólk ekki til baka til Grikklands og Ungverjalands frá árinu 2010 á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og það hef ég verið skýr með.

Ef ég hef einhvern tímann ekki verið nægjanlega skýr, og hv. þingmaður vísar sérstaklega í það, þá er það algerlega skýrt, og ég segi það hér enn og aftur, að árið 2010 hættum við að senda fólk til baka, á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, í flóttamannabúðir þar sem fólk er ekki með vernd, til Grikklands og Ungverjalands. Það er þá orðið skýrt. Það er líka rangt hjá hv. þingmanni að hér sé verið að taka ákvörðun um að senda fólk til baka án nokkurrar umhugsunar af því að verndarmálin munu fá einstaklingsbundna skoðun á þeim grunni að fólk fær viðtal, getur lagt fram gögn og fær skoðun og mat á því hvort mál brjóti í bága við 42. gr. útlendingalöggjafarinnar sem er byggð á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Hlutfallslega eru flestar umsóknir hér í samanburði við Norðurlöndin og alþjóðleg vernd var veitt til 531 einstaklings á síðasta ári. Það er því erfitt fyrir hv. þingmann að reyna að halda því fram, og klína því á hæstv. dómsmálaráðherra, að enginn áhugi sé á því að gera vel í þessum málaflokki. Á því er einmitt áhugi og sú breyting sem hv. þingmaður talaði aðallega um í frumvarpinu er m.a. gerð að norrænni fyrirmynd. Ég sé að tími minn er búinn en ég ítreka það, eins og ég hef margoft sagt áður, að við sendum fólk ekki til baka til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þá sem hafa óskað eftir vernd þar og ekki fengið hana, það höfum við ekki gert. Staða og réttindi barna sem eru fylgdarlaus eru síðan til sérstakrar skoðunar.