150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[20:45]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur margoft tekið fram í umræðum um þetta mál að umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi ekki og verði ekki sendir til landa og ríkja eins og Grikklands og Ungverjalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Fólk sem flýr heimaland sitt og kemur þá fyrst til Ungverjalands eða kemur fyrst til Grikklands en seinna til Íslands án þess að hafa fengið formlega stöðu flóttafólks, hefur ekki fengið stöðu flóttafólks, er ekki sent þangað aftur. Hæstv. dómsmálaráðherra nefnir oft í framhaldinu að þetta hafi ekki verið gert í tíu ár. En hvers vegna sjáum við þá svo oft í fréttum að flóttafólk sé einmitt sent til Grikklands? Það er vegna þess að flóttafólk sem hefur fengið viðurkenningu á þeirri stöðu, hefur fengið viðurkennt að það skuli teljast flóttafólk og hefur fengið vernd í landi eins og t.d. Grikklandi eða Ungverjalandi, hefur verið sent til baka. Það verður gert í auknum mæli verði þetta frumvarp að lögum. Ástæðan er sú að frumvarpið boðar þann skilning að flóttafólk sem hefur fengið alþjóðlega vernd, sama hvar hún er, sama við hvaða ömurlegu aðstæður það nú er, teljist ekki í hópi þess fólks sem sé í raunverulegri þörf. Þetta er flóttafólk og þetta er fólk sem stendur frammi fyrir endursendingum til þessara landa og þetta mun aukast. Þetta er fólk sem hefur fengið viðurkenningu á sinni stöðu sem flóttafólk í þeim löndum sem okkur hrýs hugur við að senda fólk til. Það er ekki hægt að skilja frumvarpið öðruvísi en svo að Útlendingastofnun og kærunefnd muni hafa litlar heimildir til að meta þessar umsóknir verði frumvarpið að lögum. Það er alveg rétt að það er ekki alveg lokað fyrir heimildirnar en útkoman blasir við.

Auðvitað geta ekki allir komið hingað til lands og Ísland getur ekki eitt staðið á þessari vakt. En ábyrgð landsins hlýtur að vera einhver. Það þarf að forgangsraða. En hættumerkið í þessu frumvarpi er hvar þessi lína er dregin, hversu ofsalega fáir munu teljast til þess hóps sem getur sótt hingað vernd og þannig sé það í nafni skilvirkni betra fyrir fólk að vera bara sent hratt og örugglega aftur til Grikklands. Viðtal og framlögð gögn og fleira í þeim dúr, sem hæstv. dómsmálaráðherra nefnir aftur í umræðunni, mun ekki breyta þeirri niðurstöðu í neinum aðalatriðum. Það er jákvætt að heyra að dómsmálaráðherra nefnir að skoða eigi atvinnuréttindi, hvort það gæti verið innkoma. Það væri vissulega mjög gott að gera það, gott ef sú leið stæði líka opin, en miðað við hversu þunga áherslu ráðherra leggur á þetta atriði þá vona ég að ríkisstjórnin fari í að skoða það. Ekkert slíkt er lagt fram samhliða frumvarpinu um þetta fólk. Eftir stendur að með því erum við að þrengja möguleika fólks til að koma hingað. Um það eru fagaðilar sammála, t.d. sérfræðingar Rauða krossins sem þekkja þennan málaflokk, vinna í honum alla daga og hafa á honum sérfræðiþekkingu. Þeir hafa miklar áhyggjur, það heyrðum við bara í kvöldfréttunum. Lögfræðingur Rauða krossins telur um mikla afturför að ræða, sérfræðingur í málaflokknum. Þessir fagaðilar taka undir með okkur í stjórnarandstöðunni um að það sé óhjákvæmilegt að fólk í viðkvæmri stöðu verði einmitt sent til þessara ríkja sem við viljum ekki senda fólk til. Og ef þetta er ekki hið raunverulega markmið með frumvarpinu þá ætti hæstv. dómsmálaráðherra líka að hafa áhyggjur. Þetta er túlkunin. Þetta er skilningurinn hjá sérfræðingum og þeim sem starfa í þessum geira og ég tek undir þá túlkun.

Ef ætlunin er að setja fókusinn á þá sem þurfa á raunverulegri vernd að halda þá eru sérfræðingar í málaflokknum á því að þetta verði niðurstaðan, önnur en markmið hæstv. dómsmálaráðherra. Ég velti því fyrir mér hvort dómsmálaráðherra sé þá til viðtals um að skoða þetta betur ef þetta er ekki markmiðið, því einkunnin sem frumvarpið fær er að það sé veruleg afturför, réttarskerðing viðkvæmra einstaklinga sem hingað leita eftir að hafa fengið alþjóðlega vernd í þeim ríkjum sem við höfum rætt um hér í kvöld. Málsmeðferðin, jú, hún verður vissulega skilvirk, jú, hún verður vissulega gagnsæ og jú, hún verður vissulega einföld. Svarið verður nei og það mun taka stuttan tíma. En ég hef líka áhyggjur af því að mér finnst pólitíkin á bak við þetta frumvarp vera hin sama, skilvirk, gagnsæ og einföld og lýsa því hvert hið raunverulega markmið er.