150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[20:53]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra svörin. Ég heyri að hún vísar, og hefur áður gert það, til þess hver staðan sé í dag og Ísland sé þegar að hafna mörgum þessara einstaklinga. Það er kannski dálítið lýsandi fyrir þennan málaflokk að það gerist annað slagið að í fjölmiðlum koma upp sögur einstaklinga sem hafa yfirleitt framkallað mikla reiði almennings og skilningsleysi. Það hefur ekki verið hinn langi málsmeðferðartími sem fólki hefur sviðið mest því það þekkjum við á Íslandi í alls konar stofnunum að málsmeðferðartíminn er víða langur og það eru ekki sjálfstæð rök fyrir því að hafna verkefnunum. Þau dæmi sem við þekkjum úr fjölmiðlum myndu miðað við breytt frumvarp dómsmálaráðherra ekki leiða til jákvæðrar niðurstöðu í dag en umræðan hefur blessunarlega í einhver skipti snúið þessum svörum við.

Svo er það þannig að ráðherrann vísar til þess að önnur ríki sendi til Grikklands með þessum hætti og ég skil orð hæstv. ráðherra með þeim hætti að henni þyki það boðleg niðurstaða. Það væri kannski ágætt að fá það fram í þessari umræðu hvort hæstv. dómsmálaráðherra þyki það boðleg pólitík af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar að senda þetta fólk sem hefur fengið alþjóðlega vernd t.d. í Grikklandi þangað aftur. Mér þætti sömuleiðis áhugavert að vita hvort einhugur er um þá stefnu í ríkisstjórn og hvort á bak við það standa ríkisstjórnarflokkarnir allir þrír því að það eru ákveðin pólitísk tíðindi í því ef það er ekki umdeilt innan ríkisstjórnar Íslands að senda fólk þangað með þeim hætti og jafnvel í auknum mæli frá því sem verið hefur.