150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[20:58]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka dómsmálaráðherra svarið. Það vakti athygli mína að hún svaraði í engu spurningu um samstöðu innan ríkisstjórnarinnar varðandi þessar endursendingar flóttafólks til Grikklands. Það finnst mér í sjálfu sér geta verið ákveðið svar að hæstv. ráðherra treysti sér ekki til að lýsa því yfir hér í kvöld að einhugur og samstaða sé um þetta mál og þá aðferðafræði og þá útlendingapólitík sem birtist í frumvarpinu. Ég merki það líka og hef tekið eftir því að oft er vísað til 42. gr. Það væri þá áhugavert að vita það líka, því ég þykist vita svarið, hversu oft er fallist á hana í samhengi við verndarmálin og hversu mikla raunhæfa þýðingu sú grein hefur fyrir þau mál sem við erum að fjalla um í frumvarpinu. Ég held að það væri miklu eðlilegra í umræðu um svona mál að það lægi einfaldlega uppi á borðum hvert markmiðið er og hvað á að gera, því ef það er þannig, og ekki ætla ég að draga orð hæstv. ráðherra í efa um það, að markmiðið sé að ná til þeirra sem eru í raunverulegri þörf, þá er þetta frumvarp mikið áhyggjuefni því að það verður ekki niðurstaðan, verði frumvarpið samþykkt með þessum hætti.