150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í dag er alþjóðlegur dagur hjúkrunarfræðinga. Vil ég því nýta tækifærið til að óska hjúkrunarfræðingum til hamingju með daginn. Ég má líka til með að þakka þeim fyrir ómissandi framlag sitt til samfélagsins, til heilsu og heilla landsmanna. Hjúkrunarfræðingar eru nefnilega ómissandi í velferðarsamfélagi. Í tilefni dagsins vil ég senda hjúkrunarfræðingum baráttukveðjur. Þessi stóra kvennastétt býr því miður við það óréttlæti að vera samningslaus í miðjum heimsfaraldri.

Þetta er óréttlæti, herra forseti. Við Píratar höfum reglulega látið kanna gildismat samfélagsins gagnvart forgangsröðun fjármuna ríkisins og það hefur komið í ljós ár eftir ár að fólk leggur langmesta áherslu á gott heilbrigðiskerfi, vel fjármagnað og vel virkandi heilbrigðiskerfi. Góð kjör og góð starfsaðstaða hjúkrunarfræðinga er grundvallarforsenda fyrir góðu heilbrigðiskerfi. Hjúkrunarfræðingar eru grundvallarforsenda fyrir góðu heilbrigðiskerfi. Hjúkrunarfræðingar hafa staðið vaktina fyrir okkur í gegnum þennan heimsfaraldur og hjúkrunarfræðingar hafa staðið vaktina fyrir okkur í gegnum súrt og sætt, herra forseti. Þrátt fyrir þetta hefur Landspítalinn þurfti að búa við stífar aðhaldskröfur ár eftir ár. Þrátt fyrir þetta hefur heilbrigðiskerfið okkar verið vanfjármagnað ár eftir ár. Og þrátt fyrir þetta erum við með fjármálaráðherra sem neitar ár eftir ár að semja við hjúkrunarfræðinga um sjálfsagða og eðlilega kjarabót — og neitar því enn.

Við lifum á tímum sem kalla á samfélagslega sjálfsskoðun. Við höfum nú tækifæri sem samfélag til að líta vel og rækilega í spegil og spyrja okkur hvort verðmætamat samfélagsins endurspegli raunveruleg verðmæti, hvort þetta sé samfélagið sem við viljum vera til framtíðar, hvort við höfum kannski villst af leið í gildismati okkar eða réttara sagt hvort stjórnvöld endurspegli raunverulegt gildismat (Forseti hringir.) og verðmætamat þjóðanna.