150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi hef ég engar áhyggjur af jafnræðisreglu hvað þetta varðar. Ég vil spyrja hv. þingmann á móti: Til hvers nota einstaklingar og fyrirtæki sér lágskattasvæði og skattaskjól? Til hvers gera þau það? Það er gert til þess að komast undan því að greiða skatta hér á landi. Það er gert til þess að komast undan því að greiða sinn sanngjarna hlut til samfélagsins. Mér finnst að við eigum að útiloka þá frá ríkisstuðningi. Helst myndi ég vilja banna þá starfsemi algerlega, en ég geri mér grein fyrir því að það þyrfti þá að gerast alls staðar í heiminum því að menn grafa undan velferðarkerfinu með því að bjóða heim fyrirtækjum og einstaklingum sem vilja skjóta peningum sínum undan og borga lægri skatta.

En a.m.k. eigum við ekki að taka peninga skattgreiðenda, taka peninga úr ríkissjóði frá þeim sem standa skil á sínu til að styrkja slíka einstaklinga og slík fyrirtæki þegar heimsfaraldur ríður yfir og við erum í stórkostlegum efnahagsvandræðum sem við sjáum ekki fyrir endann á. Það er það sem stendur í breytingartillögu minni og þau félög viljum við útiloka, jafnvel þó að þau séu lögleg. En það var gert og skattaskjól og lágskattasvæði eru notuð til þess að þurfa ekki að greiða sinn skerf til samfélagsins. Þeir sem stunda það í ríkum mæli vilja láta aðra bera sinn hlut í velferðarkerfinu. Þá eigum við ekki að styrkja með almannafé í gegnum neyðaraðstoð þegar heimsfaraldur ríður yfir.