150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[16:34]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni andsvarið. Þingmaðurinn kemur inn á það hvort hefði átt að útvíkka lokunstyrkina og ég þakka þingmanni fyrir að nefna það sérstaklega. Ég tel raunar að nefndin hafi að vissu leyti gert það til að mynda með því að skilja á milli lokunarstyrkjanna og stuðningslánanna. Í upprunalega frumvarpinu var gert ráð fyrir að ef fyrirtæki þægi lokununarstyrki myndu styrkirnir dragast frá stuðningslánunum. Nefndin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þarna værum við í raun ekki að tala um nákvæmlega sama hlutinn og þess vegna væri ástæða til að skilja þar á milli. Þetta þýðir þá að til að mynda fyrirtæki sem er með þrjá starfsmenn, skulum við segja, getur bæði sótt sér lokunarstyrk upp á 2,4 milljónir fyrir þessi þrjú stöðugildi en jafnframt náð í stuðningslán fyrir rekstrinum. Ef fyrirtækið væri með veltu upp á 100 milljónir, sem er kannski ólíklegt með þriggja manna fyrirtæki en látum það liggja á milli hluta, gæti það fyrirtæki samtals náð sér í 12,4 milljónir í stuðning og þar af 2,4 milljónir í lokunarstyrk.

Með það hvort við ættum að útvíkka ákvæðið þá hefur það svo sem komið til tals, eins og þingmaðurinn kom inn á, að slíkt gæti verið skynsamlegt. Ég tel að hægt væri að skoða í samhengi við það þegar við sjáum, kannski þegar líður á þennan mánuð og inn í þann næsta, hvort það verði umtalsverður hópur fyrirtækja sem enn þurfi að sæta lokunum með einhverjum hætti og hvort það þurfi þá kannski að teygja sig lengra og á sama hátt ef í ljós kemur að við höfum hreinlega misst af einhverjum hópum sem kynnu að hafa þurft að loka þrátt fyrir að þar hafi ekki beinlínis legið fyrir fyrirmæli sóttvarnayfirvalda.