150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður reynir að flækja málið töluvert. En ég vil þá bara spyrja hv. þingmann alveg beint: Telur hann að þau skilyrði sem sett voru í breytingartillögu meiri hlutans um skil á CFC-skýrslum um ársreikninga, um að tiltaka þurfi raunverulega eigendur, sem er allt hvort sem er í íslenskum lögum, komi með einhverjum hætti í veg fyrir að t.d. Íslendingur sem á félag á Tortólu en býr í London, rekur síðan fyrirtæki hér á Íslandi og finnur leiðir til að færa tekjur sem hér er aflað til sín í gegnum aflandsfélög — koma þau skilyrði í veg fyrir að slíkur aðili fái stuðning úr ríkissjóði núna, svo ég taki bara beint dæmi, þegar við erum að glíma við heimsfaraldur? Þegar við horfum fram á hundruð milljarða mínus á ríkissjóði, munu þá þau skilyrði sem meiri hlutinn hefur samþykkt hér ásamt Miðflokknum, duga til þess að við setjum ekki úr okkar rýru sjóðum við þessar aðstæður peninga til fyrirtækja sem setja upp fléttur og millifærslur til að svíkja undan skatti og greiða ekki sinn skerf til íslensks samfélags?