150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:03]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vildi spyrja hv. þingmann aðeins út í eitt. Nú er alveg ljóst að á fyrri stigum þessa máls var nánast áfellisdómur yfir störfum nefndarinnar þegar kom að samráði við fagaðila og þá á ég sérstaklega við lögregluna og embætti ríkissaksóknara. Af þeim 94 aðilum sem var boðið að senda inn umsagnir var ríkissaksóknari ekki þar á meðal, sem er alveg með ólíkindum, ótrúleg vinnubrögð í máli sem þessu. Það kemur auk þess fram frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að frumvarpið feli í sér þekkingarleysi á hlutverki lögreglunnar. Þetta eru náttúrlega ótrúlegar yfirlýsingar og maður spyr sig hvernig hægt er að vinna svona mál þegar ekki var einu sinni haft samband við þá sem hrærast í þessum málaflokki alla daga.

Nú segir í greinargerðinni að gerðar hafi verið breytingar á frumvarpinu í ljósi athugasemda sem velferðarnefnd bárust frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkissaksóknara sem talið var nauðsynlegt að gera. Ég ætla ekki að rekja þær athugasemdir sem koma frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkissaksóknara, en það er fjölmargt þar inni sem þingmenn verða að kynna sér.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Var tekið tillit til allra þessara athugasemda og hvar er það að finna í frumvarpinu þannig að maður geti farið nákvæmlega yfir það? Ég sé það alla vega ekki við fyrstu skoðun. Ef hv. þingmaður gæti rakið þetta sérstaklega.