150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmann andsvarið. Hann spyr út í samráðið við bæði lögreglu og saksóknara og að vísað sé til þess að gerðar hafi verið breytingar. Þær tilvísanir eru til breytinga á því frumvarpi sem lagt var fram í fyrra, fyrst og síðast, enda komu þá fram töluvert miklar ábendingar frá bæði lögreglu og saksóknara sem tekið var tillit til við samningu frumvarpsins nú og gert svo vel að til að mynda, ég held ég muni það rétt, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákvað að endingu að senda ekki umsögn um málið eins og það kom fram. Þingmanninum til hugarhægðar er held ég allt í lagi að upplýsa hér að nefndinni bárust yfirlýsingar, bæði frá saksóknaraembættinu og lögreglustjóraembættinu, um að efni frumvarpsins eins og það kæmi fram nú væri að mati þessara aðila ásættanlegt. Ég held að þar sé engu uppljóstrað, það eru tölvupóstsamskipti á milli opinberra aðila sem á ekki að þurfa að vera nein leynd á. Það var tekið tillit til þessara ábendinga og þeirra áhyggna sem menn höfðu. Þær sneru, og nú er ég að rekja það eftir minni, kannski að stærstum hluta til að afmörkun hins refsilausa svæðis og að það væri tryggt með hvaða hætti starfsmenn þessara embætta ættu að umgangast það og hvaða heimildir þeir hefðu til að mynda til að grípa ekki inn í þau verkefni sem unnin eru í neyslurýmunum.