150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hér er verið að leggja til í raun og veru grundvallarbreytingu. Ísland hefur fylgt banni gagnvart neyslu, sölu og dreifingu eiturlyfja og í rauninni er verið að breyta þeirri stefnu. Þá spyr maður: Er ekki hugsanlegt að almenningur sé á móti því að hið opinbera reki neyslurými fyrir sprautufíkla sökum þess að verið er að viðurkenna eiturlyfjaneyslu og að hugsanlega gæti það haft þau áhrif að hún myndi aukast í þessum neyslurýmum? Það sem ég hef verið að skoða, alla vega varðandi reynsluna erlendis hvað þetta varðar, þá eru hvorki fyrirtæki né einstaklingar ánægð með að hafa neyslurýmin nálægt sér, þ.e. rýmið sjálft. Þetta er ein af þeim áskorunum sem lúta að þessu máli hvað varðar neyslurými, hvar það á að vera. Eins og ég segi, viðbrögð fólks erlendis hafa öll verið á þann veg.

Það sem mig langaði kannski aðeins að fá fram hjá hv. þingmanni — ég tek fram að mér finnst það dýrmætasta af öllu að geta hjálpað þessum fíklum, að hætta neyslu fíkniefna og ég hefði viljað sjá meiri fjármuni setta í þar. Er búið að kortleggja nákvæmlega þessi meðferðarúrræði, hvort ekki sé hægt að setja meiri pening í þau úrræði og reyna að hjálpa fólki að hætta þessari neyslu? Mig langaði að fá það aðeins fram hjá hv. þingmanni og síðan, ef hún gæti þá farið yfir það, hvort ekki sé eðlilegt að almenningur fái að segja sitt álit í þessu máli (Forseti hringir.) því að þetta er náttúrlega breyting á grundvallarstefnu í okkar kerfi, það er verið að breyta grundvallarstefnu okkar í þessum málum.