150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er þess alveg fullviss að hann færi létt með að útfæra kosningu um þessa hluti ef eftir því væri sóst. Þetta varðar nærsamfélagið í sveitarfélögum þar sem íbúar taka þátt í ýmsum ákvörðunum er varða nærsamfélag þeirra. Mér finnst ekkert að því að þeir fái að segja álit sitt á því hvort sett verði upp neyslurými í nærsamfélagi þeirra, mér finnst bara ekkert að því. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að þá fer fram góð kynning á málefninu og menn geta tekið upplýsta ákvörðun um það. Ég held að það sé ekkert flókið, hv. þingmaður. Það er nú annað eins sem menn greiða atkvæði um, hvort það eigi að laga þessa leikskólalóð eða einhverja aðra. Þetta er bara eitt af þeim atriðum sem væri mjög auðvelt í framkvæmd. Ég held að það sjái það allir.