150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Af því að hv. þingmaður talaði um það áðan að ég væri að fara í umsagnir á fyrri stigum þessa máls sem eigi ekki við núna hefði ég kosið að það hefði þá verið sagt hér í framsögu eða í nefndaráliti að tekið hefði verið tillit til allra þessara athugasemda. Ég held að það séu bara eðlileg vinnubrögð og það er eðlilegt að ég spyrji að því í þessari umræðu vegna þess að umsagnir á fyrri stigum voru bara mjög alvarlegar, við málsferðmeðferðina alla. Þess vegna segi ég: Ef það kemur einhver tölvupóstur um að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu geri ekki neinar athugasemdir eða neitt, að þetta sé bara orðið gott og blessað, væri bara gott að fá það fram í þessari umræðu eða í nefndaráliti sem hefði átt að vera.

En varðandi það hvort eitt úrræði útiloki annað, það hef ég aldrei sagt. Ég sagði bara að ég hefði viljað sjá það, í umræðunni hér, fá það fram, hvort búið væri að kortleggja öll þau úrræði sem standa þessum hópi til boða, hver árangurinn sé, hvaða upphæðir eru settar í þetta árlega og hvort hægt væri að ná betri árangri. Það er það sem ég vil fá að vita. Tilfinningalega finnst manni það svolítið dapurlegt, hvað varðar aðila sem eru háðir fíkniefnum og eru fíklar, að í raun sé bara verið að bæta á þann dapurleika með þessum neyslurýmum. Ég hefði viljað sjá að þessir einstaklingar næðu sér á strik og féllu frá fíkniefnaneyslunni. Það er náttúrlega það sem við óskum öll eftir. (Forseti hringir.)