150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni. Auðvitað myndum við öll helst vilja að enginn yrði fíknisjúkdómi að bráð. Takmark okkar hlýtur alltaf að vera að útrýma fíkniefnaneyslu ef það er mögulegt. En nú hefur fíkn verið skilgreind sem sjúkdómur og einhvern veginn vill nú vera þannig með sjúkdóma að það er flókið fyrir okkur að útrýma þeim með öllu. Þá leitum við allra leiða til að leita lækninga, tímabundinna eða langvarandi, eða þá að reyna að lina þrautir hins sjúka. Og aftur segi ég að eitt útilokar ekki annað. Í þessu tilviki er verið að heimila sveitarfélögum að opna neyslurými þar sem það gæti mögulega gagnast og byggja upp einhvers konar traust hjá fíklum í garð kerfisins, heilbrigðisstarfsmanna sem þar starfa, lögmanna, félagsráðgjafa, þeirra sem þar munu starfa og mögulega lögreglu líka. Það hefur mjög margt gengið á þegar fólk er komið svo langt inn í fíkniheiminn að það er farið að sprauta sig og ef hægt er að búa til ögn af trausti þarna (Forseti hringir.) held ég að viðkomandi sé nær því að hætta en hann var áður en hann gekk inn. (Forseti hringir.) Þetta segi ég bara af reynslu, af fyrri störfum mínum með fíklum.