150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisandsvar. Að sjálfsögðu er mjög erfitt að setja sig í spor fólks sem glímir við þá alvarlegu sjúkdóma sem fíknisjúkdómar eru. Það væri kannski fróðlegt í þessu að fá fram viðhorf aðstandenda, t.d. foreldra og fjölskyldna fíkla, hvernig þau líta á svona málefni. Hefðu þau viljað sjá að meiri fjármunir yrðu settir í meðferðarúrræðin, að allra tiltækra leiða yrði leitað í þeim efnum frekar en að stuðla að þessu rými, að þessari lausn, ef það má kalla það svo? Mér finnst það líka skipta máli og vonandi sjáum við fram á að geta aukið fé, og við eigum að gera það, til meðferðarúrræða. Mér fannst umsögnin (Forseti hringir.) frá SÁÁ t.d. mjög áhugaverð, sem (Forseti hringir.) hefur áhyggjur af því að þetta gæti hugsanlega aukið neysluna. (Forseti hringir.) Það finnst mér mikið áhyggjuefni.