150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það hefur komið fram að þessir einstaklingar eiga gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Það er tekið skýrt fram og kemur fram í umsögn frá SÁÁ. Það stendur ekki í vegi fyrir því að þessir einstaklingar geti sótt sér alla þá heilbrigðisþjónustu sem þeir eiga rétt á. Það er því kannski ekki alveg rétt sem komið hefur fram að verið sé að bæta aðgengi þeirra að heilbrigðisþjónustu. Hún er þegar til staðar, svo því sé haldið til haga.

Ég legg aftur áherslu á það, hv. þingmaður, að ég tel að við eigum að leita allra úrræða til að koma í veg fyrir að í raun sé verið að bæta aðgengið að fíkniefnum, sem verið er að gera með þessum neyslurýmum, og þá finnst mér meðferðarúrræðin skipta mestu máli. Það er mín skoðun og það hefur verið innlegg mitt í þessa umræðu.