150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:11]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að mótmæla orðum herra forseta þegar hann segir að spurning mín hafi ekki átt við efnið þegar hv. þingmaður sem hélt hér ræðu á undan undraðist það að hv. velferðarnefnd væri ekki á sama tíma og hún er að afgreiða þetta mál að auka við fjárhagslegan stuðning sinn til SÁÁ. Ég sé því ekki hvernig spurning mín getur ekki verið beint framhald af ræðu hv. þingmanns. Mér þykir það pínulítið snúið þegar hæstv. forseti stígur hér upp af stól sínum til að leggja einhvern veginn línurnar fyrir andsvör fyrir hv. þingmenn í hans flokki. Það er pínulítið sérstakt að fylgjast með þessu. Sú spurning sem ég bar fram var í beinu framhaldi af ræðu hv. þingmanns sem kvartaði yfir því að stuðningsmenn þessa máls sem við erum að fjalla hér um í dag væru ekki að auka stuðning við meðferðarstarf SÁÁ. Þá get ég bara upplýst þingheim um það að ég gerði það einmitt og tel fulla ástæðu, og það er ekki yfirboð, hv. þingmaður, til að setja fjármagn inn þar af því að það er nauðsynlegt. Biðlistar hafa lengst mjög mikið. Það er ekki yfirboð, þetta er raunveruleiki, hv. þingmaður, og það er óskiljanlegt (Forseti hringir.) hvernig meiri hlutinn (Forseti hringir.) getur …(Forseti hringir.)

(Forseti (BN): Forseti biður hv. þingmann að stíga úr ræðupúltinu.)

aldrei stutt góðar tillögur ef þær koma ekki úr réttri átt.