150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir svarið. Við virðumst alltaf hafa tilhneigingu, og hefur verið undanfarna áratugi, til að vera með biðlista eftir t.d. áfengismeðferð, eftir læknismeðferð. Það er kannski sorglegast að við vitum að með því að setja meira fé í málaflokkinn erum við skila því til baka. Við erum að ná til fólks og við erum að koma fólki út í eðlilegt líf og á vinnumarkað og jafnvel í nám eða eitthvað. Það er óskiljanlegt en það virðist vera lenskan að hunsa þetta og hafa fasta biðlista.

Við verðum líka að hugsa einhvern veginn öðruvísi um þessa veiku einstaklinga. Þetta er fárveikt fólk, ég get fullyrt það, þetta er fárveikt fólk sem þarf líka að hjálpa á einhvern hátt. Ég spyr hv. þingmann: (Forseti hringir.) Er hann ekki sammála því að við eigum að gera það? Það er þá kannski spurning, ef við erum ósammála, um hvernig eigi að gera það.