150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

gjaldþrotaskipti.

815. mál
[18:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta frumvarp. Ég held að það séu margir búnir að bíða eftir því. Ég vona að það fái góða umfjöllun í nefndinni og ef einhverjir agnúar eru á þessu sem þarf að laga þá verði þeir lagaðir. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt mál. Við þekkjum það að kennitöluflakk er meinsemd í íslensku efnahagslífi. Ég vil fagna því sérstaklega að í frumvarpinu er rætt um samráð og það hafi verið haft samband við m.a. Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Það er náttúrlega mjög mikilvægt að hafa samráð við hagsmunaaðila hvað þetta varðar. Í kennitöluflakki, sem svo er kallað, er í raun og veru fólgin misnotkun á reglunni um takmarkaða ábyrgð hluthafa. Það eru líkur á því að íslenskt samfélag verði af tugum milljarða kr. á ári vegna háttsemi sem telst til kennitöluflakks. Flestallir eru sammála um að vandamálið sé til staðar og að ekki hafi náðst viðunandi árangur. Þess vegna fagna ég sérstaklega þessu frumvarpi.

Á undanförnum árum hafa ekki átt sér stað neinar meiri háttar breytingar á lögum til að sporna við kennitöluflakki, sem er svolítið sérstakt vegna þess að það er margoft búið að tala um þessa meinsemd. Kennitöluflakki er hægt að lýsa þannig að viðkomandi félag deyr í raun og veru en rekstur þess lifir af og heldur áfram í gegnum annað félag á nýrri kennitölu. Þá er það skilyrði kennitöluflakks, ef svo má að orði komast, að markmiðið með því sé m.a. að komast hjá einhverjum eða öllum lagalegum skyldum félagsins. Almenningur og aðrir sem eru ekki að skoða kennitölur félaga þegar þeir eiga viðskipti við þau verða því oft á tíðum ekki varir við þessa breytingu, meira að segja hið opinbera, t.d. sveitarfélögin. Það er í raun verið að eiga viðskipti við fyrirtæki sem hefur síðan kannski skipt um kennitölu o.s.frv. og ekki staðið í skilum á launum og þar fram eftir götunum. Nýja félagið rís úr ösku þess gamla og heldur áfram með rekstur eldra félagsins og sú háttsemi er ámælisverð og ólögmæt.

Birtingarmynd kennitöluflakks getur verið með ýmsum hætti og í grundvallaratriðum er hægt að flokka kennitöluflakk í tvo hópa eftir því hvort upprunalegur tilgangur félagsins eigi að vera að standa við allar lagalegar skuldbindingar sínar eða ekki. Sú birtingarmynd kennitöluflakks sem líklega kemur fyrst upp í huga margra er þegar félag sem sér fram á að geta ekki efnt skuldbindingar sínar við kröfuhafa er látið fara í þrot, en áður en það er gert er stofnað nýtt félag af stjórnendum eldra félagsins sem flytur til sín hluta eða allar eignir eldra félagsins á undirverði eða jafnvel án þess að borga nokkurn skapaðan hlut fyrir. Nýja félagið er oft starfrækt undir sama viðskiptanafni og hið eldra og heldur þannig viðskiptavildinni og rekstur getur því haldið áfram í nýja félaginu, en skuldir eldra félagsins eru hreinsaðar. Að sjálfsögðu skekkir þetta mjög samkeppnisaðstöðu þeirra sem eru heiðarlegir í sínum rekstri og eru búnir að starfa í mörg ár en verða síðan undir í samkeppninni þegar kemur að útboðum o.s.frv., þar sem fyrirtækin komast jafnvel að sem hafa farið þessa ólögmætu leið.

Hægt er að skilgreina kennitöluflakk sem vísvitandi og oft á tíðum kerfisbundið gjaldþrot félaga sem á sér stað með sviksamlegum eða ólögmætum hætti eða ásetningi til þess að komast hjá sköttum og öðrum lagalegum skuldbindingum, m.a. gagnvart starfsmönnum, og halda áfram starfsemi arðvænlega hluta rekstrarins í gegnum nýtt félag eins og ég rakti. Kennitöluflakk getur einnig falið í sér að starfseminni sé haldið áfram undir sama nafni og stjórnendur nýja félagsins séu þeir sömu og í eldra félaginu eða nákomnir þeim og starfsmenn eldra félagsins haldi áfram að vinna hjá nýja félaginu og/eða gjaldþrot á sér stað í einu félagi í samstæðu. Brotið er gegn samningsbundnum eða lagalegum skuldbindingum sem geta sætt einkaréttarlegum eða refsiverðum afleiðingum.

Ég veit ekki til þess að teknar hafi verið saman tölur um umfang kennitöluflakks eða upplýsingar um hvert hlutfall kennitöluflakks sé af heildarfjölda gjaldþrota. Það væri mjög fróðlegt að fá að vita það. Starfshópur á vegum ríkisskattstjóra áætlaði á sínum tíma að skatttekjur væru ríflega 80 milljörðum lægri á ársgrundvelli en umsvif þjóðfélagsins gáfu vísbendingu um að þær ættu að vera, þ.e. það gætu hugsanlega verið verulegar fjárhæðir í spilinu. Það er fróðlegt í þessu samhengi, af því að minnst er á samráð við Alþýðusamband Íslands í þessu frumvarpi, að Alþýðusambandið sendi frá sér skýrslu í október 2013 þar sem lagt var mat á samfélagslegt tjón af völdum kennitöluflakks. Þetta er mjög áhugavert og ég hvet þingmenn til að kynna sér það. Sambandið kom síðan fram með tillögur um aðgerðir gegn kennitöluflakki. Þarna kemur fram, reyndar gamlar tölur, að frá 1. mars 2012 fram í janúar 2013 voru lýstar kröfur í þrotabú félaganna þar sem uppgjöri var lokið tæpir 166 milljarða kr. og einungis 5,2 milljarðar kr. innheimtust upp í þær kröfur, sem er 3,1%. Það var ótrúlega lágt hlutfall. Við sjáum að samfélagið verður þarna af gríðarlegum verðmætum. Þá má einnig geta þess að í rannsókn sem gerð var á vegum nemenda við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík frá árinu 2005 kemur fram að stjórnendur rúmlega 73% fyrirtækja sem voru tekin fyrir í rannsókninni telja sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum kennitöluflakks. Þar af taldi ríflega þriðjungur stjórnendanna fyrirtæki sín hafa orðið fyrir tjóni vegna kennitöluflakks oftar en sex sinnum. Könnunin náði til 600 fyrirtækja. Þessi niðurstaða gefur sterka vísbendingu um að umfang kennitöluflakks hér á Íslandi sé umtalsvert og þess vegna er þetta mál afar mikilvægt. Ég vona, eins og ég sagði áðan, að það fái góða umfjöllun í nefndinni og vandlega verði farið yfir það og hlustað á umsagnaraðila sem koma þar að, hvort það sé eitthvað fleira sem þurfi að bæta inn í þetta.

Það er nokkuð ljóst að hér á Íslandi eru kjöraðstæður fyrir kennitöluflakk. Á grundvelli veikrar löggjafar sem er beitt af lítilli eða ekki nægjanlegri festu hafa sumir óprúttnir aðilar séð sér leik á borði með því að hafa af kröfuhöfum fé með ólögmætri háttsemi sem telst til kennitöluflakks. Það eru sterkar líkur á því að íslenskt samfélag verði árlega af tugum milljarða vegna kennitöluflakks. Þeir sem verða fyrir tjóni vegna þessa eru kröfur viðkomandi félags sem geta einkum verið fyrirtæki, ríkissjóður, stéttarfélög og lífeyrissjóðir og hinn almenni launamaður í landinu. En kennitöluflakk getur haft keðjuverkandi áhrif og leitt til tjóns fyrir aðra en þá sem eiga kröfur á hendur félaginu. Þá njóta þeir aðilar sem stunda kennitöluflakk ótvíræðs samkeppnisréttarlegs forskots, sem ég kom inn á áðan, sem er náttúrlega ótrúlega ósanngjarnt ef menn hugsa út í það og sjá veruleikann í því hvað það getur verið ósanngjarnt og haft slæm áhrif, t.d. þegar kemur að útboði og öðru slíku. Síðan má nefna að tjónið í þessu tilfelli lendir að lokum á almenningi. Almenningur þarf að bera þetta tjón í formi skatta, minni þjónustu og hækkaðs vöruverðs. Það er bara staðreynd. Þetta kemur m.a. fram í meistaraprófsritgerð í lögfræði eftir Guðmund Heiðar Guðmundsson sem er athyglisvert að lesa í þessu samhengi.

Miðflokkurinn lagði til breytingartillögu við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019 þess efnis að settar yrðu um 120 millj. kr. í baráttuna gegn kennitöluflakki. Við lögðum áherslu á að setja fjármuni til ríkisskattstjóra og til skattrannsóknarstjóra vegna þess að þetta er meinsemd í samfélaginu sem þarf að uppræta. Það er nú bara þannig að þessa góðu tillögu felldu ríkisstjórnarflokkarnir eins og margar aðrar sem koma frá stjórnarandstöðunni, sjálfsagt vegna þess að þeir áttu ekki hugmyndina sjálfir. En í þessu, eins og svo mörgu öðru, erum við í Miðflokknum langt á undan ríkisstjórnarflokkunum þegar kemur að mikilvægum tillögum til hagsbóta fyrir land og þjóð. Að sjálfsögðu styðjum við þetta mál og færum nefndinni góðar óskir í vinnslu þess. En það hefði verið ánægjulegt ef ríkisstjórnarflokkarnir hefðu samþykkt tillögu okkar á sínum tíma. Vonandi er einhver hugarfarsbreyting hvað þetta varðar hjá ríkisstjórnarflokkunum og við fáum kannski að sjá núna, í þeim aðgerðapökkum sem fram undan eru, að menn hlusti aðeins á stjórnarandstöðuna og þær tillögur sem hún hefur fram að færa. En þetta er mál sem er afar brýnt eins og ég hef rakið og er mikil meinsemd í okkar samfélagi. Ég held að þetta sé nánast séríslenskt fyrirbæri, a.m.k. virðast aðstæðurnar á Íslandi vera alveg kjörnar fyrir það að stunda þessa háttsemi. Þetta frumvarp mun vonandi taka á því og þessi gjörningur, þessi ólöglega háttsemi, heyra sögunni til.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan þarf að fara vandlega yfir málið í nefndinni og bæta einhverju við ef svo ber undir. Það er líka mikilvægt að þetta sé tiltölulega einfalt og að allar þær girðingar haldi sem verða settar upp. Þeir sem stunda háttsemi eins og kennitöluflakk reyna að finna hina ýmsu smugur til að komast hjá reglum og halda áfram sinni háttsemi. Það þarf að tryggja það í nefndarvinnunni að engar glufur séu í frumvarpinu sem geta gert það að verkum að menn geti haldið áfram að skipta um kennitölu og valda með því tjóni gagnvart launamönnum og fyrirtækjum og öðrum sem eru í samkeppni við viðkomandi fyrirtæki o.s.frv. Það skekkir náttúrlega verulega samkeppnisaðstöðuna að menn geti hreinlega ýtt frá sér öllum skuldum og stofnað bara nýja kennitölu og haldið áfram sömu starfsemi og þeir voru í á meðan hinir, sem hafa verið heiðarlegir í sinni starfsemi, þurfa að standa skil á öllum gjöldum og sköttum o.s.frv. Það sjá allir hversu ósanngjarnt það er. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það er dapurlegt að við skulum ekki hafa tekið á þessu máli fyrr. Það er margbúið að tala um þetta, búið að sýna fjölmörg dæmi og það eru dæmi um að opinberir aðilar hafi ráðið fyrirtæki í vinnu sem hafa orðið uppvís að kennitöluflakki. Slíkt er eins forkastanlegt og frekast getur orðið.

Við vonum að þetta mál verði til þess að kennitöluflakk heyri sögunni til og ég óska nefndinni alls hins besta í þessu. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að koma fram með þetta frumvarp. Vonandi mun hún heyra sögunni til þessi kennitölumeinsemd sem ríkt hefur í íslensku samfélagi allt of lengi.