150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[18:53]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa. Frumvarpið er lagt fram þar sem tímabundnar þrengingar á vinnumarkaði vegna útbreiðslu kórónuveiru sem veldur Covid-19 sjúkdómnum og sóttvarnaráðstafana vegna útbreiðslu sjúkdómsins hafa orðið umfangsmeiri og kunna að vara í lengri tíma en gert var ráð fyrir þegar lög um hina svokölluðu hlutabótaleið voru samþykkt hér á Alþingi 20. mars sl.

Í ljósi þess er í frumvarpinu lagt til að gildistími úrræðisins verði framlengdur frá 1. júní til og með 31. ágúst 2020, en að óbreyttu fellur úrræðið úr gildi 31. maí nk.

Markmið frumvarpsins er líkt og áður að stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt, enda þótt það kunni að vera nauðsynlegt að minnka starfshlutfall þeirra að einhverju leyti vegna samdráttar í starfsemi. Lagt er til að við útreikning á fjárhæð atvinnuleysisbóta verði áfram miðað við meðaltal heildarlauna síðustu þriggja mánaða áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Hins vegar er lögð til sú breyting á úrræðinu frá því sem nú er að launamanni verði heimilt að óska eftir að miðað verði við meðaltal heildarlauna í hverjum mánuði tekjuárið 2019. Enn fremur er lagt til að við útreikning á fjárhæð atvinnuleysisbóta verði heimilt að líta til annarra tímabila hafi launamaður verið í fæðingar- og foreldraorlofi á viðmiðunartímabili. Auk þess er lagt til að launamaður haldi að lágmarki 50% starfshlutfalli frá og með 1. júlí 2020 í stað 25% eins og nú er.

Þá er gert ráð fyrir að framlengd verði heimild til greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem hafa nýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta frá því að lögin um hlutabótaleið voru sett í mars sl. vegna verulegs samdráttar í rekstri. Er þetta lagt til þar sem mikilvægt þykir að þessir einstaklingar haldi tekjutengdum bótum út það tímabil sem úrræðinu er ætlað að gilda, en almennt eru greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Virðulegi forseti. Sennilega hefur ekki farið fram hjá mörgum fjölmiðlaumræða undanfarinna daga um stöndug fyrirtæki sem sagt hafa starfsfólki sínu upp að hluta sem í kjölfarið hafa nýtt sér rétt sinn til atvinnuleysisbóta í gegnum hlutabótaleiðina. Vissulega var lögunum frá því í mars ætlað að koma í veg fyrir holskeflu uppsagna á vinnumarkaði en þeim var ætlað að gera fyrirtækjum sem urðu illa úti við upphaf kórónuveirufaraldursins kleift að halda ráðningarsambandi við fólkið sitt þrátt fyrir tímabundna erfiðleika. Að mínu mati tókst það ætlunarverk okkar og tala tölur um nýtingu úrræðisins þar sínu máli. Hins vegar verð ég að segja að það kom á óvart að sjá að fyrirtæki sem standa vel fjárhagslega, og jafnvel afar vel, völdu að segja starfsmönnum sínum upp að hluta og eðlilega nýttu umræddir starfsmenn síðan rétt sinn til atvinnuleysisbóta í kjölfarið. Í ljósi þess er óhjákvæmilegt að sett verði tiltekin skilyrði þannig að ekki komi til þess að fyrirtæki sem vel eru í stakk búin fjárhagslega til að halda ráðningarsambandi við fólkið sitt þrátt fyrir tímabundnar þrengingar í rekstri geri það.

Í frumvarpinu er því lagt til að aukin skilyrði verði sett hvað varðar starfsemi vinnuveitenda launamanna sem sækja um hlutabætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Sem dæmi má nefna að í frumvarpinu er lagt til að vinnuveitandanum beri að staðfesta að starfsemin hafi dregist saman um 25%, að viðkomandi skuldi ekki opinber gjöld og launatengd gjöld, að hann beri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi og hafi staðið skil á skýrslu um eignarhald á félögum í skattaskjóli ef það á við, að hann hafi á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023 ekki í hyggju að greiða út arð, lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa, greiða óumsamda kaupauka, kaupa eigin hlutabréf, inna af hendi aðra greiðslu til eigenda á grundvelli eignaraðildar þeirra, greiða af víkjandi láni fyrir gjalddaga, veita eigendum eða nákomnum aðilum lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna eða greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3 millj. kr.

Þetta eru vissulega ströng skilyrði sem geta haft lakari réttindi í för með sér fyrir launafólk uppfylli vinnuveitandi ekki framangreind skilyrði en ég tel þó að ekki verði hjá þessu komist eins og dæmin sanna, því miður.

Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir auknum heimildum Vinnumálastofnunar til að afla gagna um starfsemi vinnuveitenda og að stofnuninni verði heimilt að endurkrefja vinnuveitanda um þær bætur sem starfsfólk hans hefur fengið greiddar á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2020 að viðbættu 15% álagi komi í ljós að skilyrði fyrir greiðslu bótanna, hvað varðar starfsemi viðkomandi vinnuveitanda, hafa ekki verið uppfyllt.

Þá er lagt til að stofnuninni verði heimilt að birta opinberlega lista yfir vinnuveitendur launafólks sem fær greiddar hlutabætur á móti minnkuðu starfshlutfalli.

Virðulegi forseti. Líkt og að framan greinir hafa þrengingar á vinnumarkaði vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum og sóttvarnaráðstafana vegna útbreiðslu sjúkdómsins orðið umfangsmeiri og varað lengur en gert var ráð fyrir þegar lög um hina svokölluðu hlutabótaleið voru samþykkt á Alþingi þann 20. mars sl. Þar sem úrræðið hefur almennt gefist afar vel tel ég mikilvægt að framlengja umrædda hlutabótaleið fram til 31. ágúst á þessu ári og legg það til með frumvarpi því sem hér um ræðir.

Í ljósi þess að gildistími úrræðisins rennur að öllu óbreyttu út um næstu mánaðamót legg ég jafnframt áherslu á að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi sem fyrst.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.