150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:08]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég skil það þá sem svo að það hafi ekki beint verið greindar einhverjar sviðsmyndir og ekki hafi verið áætlað á neinn hátt hvort uppsögnum myndi fjölga eða fækka út frá þessu samspili úrræða en kannski að hæstv. ráðherra geti leiðrétt mig ef ég hef misskilið svarið hans.

Mér finnst nokkuð ljóst að ríkisstuðningur vegna uppsagna muni fjölga eða alla vega auðvelda fyrirtækjum að segja upp starfsfólki sínu. Ég vil spyrja hvort ráðherra sé opinn fyrir því að skoða möguleikann á því, á meðan við erum í þennan stutta tíma með svo mikinn fjölda fólks á atvinnuleysisbótum og því fer að fjölga, að afnema skilyrði í kringum atvinnuleysisbætur, þ.e. að auka sveigjanleika fólks til að vinna tilfallandi verkefni eða taka að sér einhvers konar hlutastörf án þess að þurfa að falla út úr (Forseti hringir.) atvinnuleysisbótakerfinu — það er að missa öryggisnetið sitt. (Forseti hringir.) Er ekki betra fyrir hagkerfið einmitt núna að binda ekki hendur fólks á þann (Forseti hringir.) hátt sem atvinnuleysisbætur gera varðandi að prófa sig áfram?