150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:09]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi sviðsmyndirnar til að enda það. Það er auðvitað mjög erfitt að greina hversu mörgum verður sagt upp eða hversu mörgum ekki vegna þess að utanaðkomandi atriði stýra því en ekki nákvæmlega það hvernig þessi frumvörp eru. Munum við t.d. fara að sjá einhverja ferðaþjónustu komast af stað hér? Hvernig verður ferðaþjónustusumarið varðandi innanlandsmarkaðinn? Það hefur áhrif til lengri tíma á það hvaða samspil verður á milli þeirra þátta og erfitt að vinna nákvæmar rekstrargreiningar vegna þess að við vitum ekki nákvæmlega hvernig hegðun heimsins verður næstu vikur og mánuði.

Varðandi það að skoða möguleikann á því að afnema skilyrði fyrir atvinnuleysisbótum þá er það svo í dag að fyrirtækjum er heimilt að ráða til sín starfsfólk (Forseti hringir.) og miða við að halda atvinnuleysisbótum í einhvern ákveðinn tíma. Við erum að skoða frekari átök í þá veruna, (Forseti hringir.) með hvaða hætti við getum gert það. En fyrst (Forseti hringir.) ætlum við að klára þetta. Hitt er svo væntanlegt í næstu lotu.