150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og lýsi ánægju minni með að verið sé að herða skilyrðin í hlutabótaleiðinni, sem er algerlega nauðsynlegt. Við höfum orðið vitni að því, sem og öll þjóðin, hvernig stöndug fyrirtæki hafa verið að nýta sér þetta úrræði sem hafa ekki þurft á því að halda.

Ég vil koma inn á það við hæstv. ráðherra í þessu sambandi, vegna þess að það er nauðsynlegt, hvort hann þekki hversu mörg fyrirtæki hafa misnotað þessa leið og um hvaða fjárhæðir er að tefla í þeim efnum. Það er nauðsynlegt að fá það fram. Er ekki rétt skilið hjá mér, hæstv. ráðherra, að við fáum að sjá lista yfir þau fyrirtæki sem hafa nýtt sér þessa leið? Það er mikilvægt að framlengja hana, ég tek undir það. En það er líka mikilvægt að koma í veg fyrir alla misnotkun eins og hægt er vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir hlustuðu ekki á það í upphafi. Varað var við því, m.a. í nefndarvinnunni, og bent á að fylgjast þyrfti mjög vel með þessu og setja ákveðin skilyrði.