150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er nefnilega svo að við í Samfylkingunni viljum að skilyrðin sem við setjum í lög virki. Þess vegna höfum við mikið verið að tala fyrir því að setja inn ákvæði sem virka. Það að setja inn kröfu um ótakmarkaða skattskyldu hefur ekkert að segja af því að það er grundvöllur þess að fyrirtæki geti flutt út peninga héðan að það sé með ótakmarkaða skattskyldu hér. Þegar það er með ótakmarkaða skattskyldu úti í heimi getur það ekki flutt út peninga, af því að þá er það ekki hér. Það kom fram í máli hv. þingmanns að fyrirtæki sem ekki getur skilað CFC-skýrslu geti ekki nýtt sér þetta úrræði. Fyrirtæki sem er að reyna að fela eignarhald sitt í skattaskjóli skilar ekki inn CFC-skýrslu af því það er að reyna að fela eignarhald. Og hvernig er það gert? Það er t.d. gert með því að flytja út peninga sem aflað er hér á landi og fela þá á aflandseyjum í formi greiðslu fyrir stjórnarsetu, í formi milliverðlagningar á afurðum, það þekkist t.d. í útvegsgeiranum, í formi alls konar tækniaðstoðar eða hvað sem er. Það er þannig sem þetta er gert og þetta verða þingmenn sem eru að fást við þessi mál núna að skilja og þeir verða að átta sig á því hvernig þetta er praktíserað. Ef þú skilar inn CFC-skýrslu er það eins og að skila inn skattframtali á Íslandi, svo að ég reyni að einfalda þetta mál fyrir þeim sem halda að CFC-skýrsla sé einhver vörn. (Forseti hringir.) Hún er það ekki, hún er það alls ekki. (Forseti hringir.) Ég átta mig því ekki alveg á því af hverju hv. þingmaður (Forseti hringir.) lætur eins og þetta sé vörn.