150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég reikna með að nokkrir lögfræðingar og skattasérfræðingar á þessu sviði hafi farið yfir málið í ráðuneytinu áður en það kom hingað, að búið sé að rýna það ansi vel. En ég skil það líka þannig, eins og hv. þingmaður talar, að hún sjái fram á að fyrirtæki sem skila ekki þessari CFC-skýrslu hafi samt aðgang að þessu úrræði. Ég gagnspyr hv. þingmann: Telur hv. þingmaður að þau fyrirtæki sem skila ekki þessari skýrslu geti samt komist inn í þetta úrræði? Það er fyrsta spurningin. Í öðru lagi að fyrirtæki sem skila þessari skýrslu séu mögulega að fela fé í skattaskjóli og borgi ekki tilheyrandi skatt af fjármunum þar; ef svo er þá eru menn að brjóta landslög og við höfum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra í fullu starfi við að elta slíka aðila uppi, burt séð frá þessari hlutabótaleið og eru auðvitað í því að reyna að ná utan um slíka ólöglega starfsemi. Það heldur áfram, burt séð frá þessari hlutabótaleið. Það er ekki liðið að menn séu að brjóta lög, hvort sem það er í samhengi við hlutabótaleiðina eða eitthvað annað. (Forseti hringir.) Það verk verður áfram í höndum okkar stofnana eins og ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra.