150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta andsvar er að breytast í annað andsvar þar sem sú sem spyr fær spurningu. Það er kannski rétt að upplýsa hv. þingmann um að það skila ekki öll félög inn CFC-skýrslum. (Gripið fram í.) Nei, hv. þingmaður er aðeins að misskilja. Það eru eingöngu þau félög sem eiga félög á lágskattasvæðum sem gefa þau upp og greiða af þeim skatta hér sem skila þessum CFC-skýrslum. Þau félög sem eru rekin á Íslandi í fullum rekstri og eiga ekki slík félög einhvers staðar erlendis, þar sem skattar eru lágir, skila ekki svona skýrslu. Ekki er því hægt að segja að öll þau félög sem ekki skila CFC-skýrslu fái ekki að njóta úrræðisins. Þá erum við á mjög vondum stað af því að langflest félög á Íslandi eiga ekki önnur félög á lágskattasvæðum. Það eru bara félögin sem eiga slík félög á lágskattasvæðum sem skila þessari skýrslu þannig að við getum ekki farið að útiloka öll félög á Íslandi.

Varðandi 15% álagið þá var það á í því máli sem lagt var fram á sínum tíma. Munurinn á því máli og þessu máli er að nú er verið að beita viðurlögum sem eru að mínu mati mögulega langt umfram það sem eðlilegt er. Við erum auðvitað að vonast til þess að fyrirtæki þurfi að nota þessi úrræði í mjög stuttan tíma. Við erum að vonast til þess að hagur þeirra vænkist mjög þannig að þau geti farið að stunda eðlilegan rekstur innan þriggja ára. Við skulum vona það af því við erum jú bjartsýn, við erum öflug þjóð þegar við stöndum saman. Ég spyr hvort hv. þingmaður telji eðlilegt að beita viðurlögum þrjú ár fram í tímann.