150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að fyrirtæki sem nýta sér þetta úrræði greiði sjálfum sér ekki arð næstu þrjú árin og ég hefði haldið að Samfylkingin væri á svipuðum nótum, fyrirtæki sem fá þennan stuðning úr opinberum sjóðum. Mér finnst bara alveg eðlilegt að þau greiði ekki arð næstu þrjú árin. Við þurfum öll að taka á þessu saman og menn geta haldið að sér höndum í þeim efnum og rekið sín fyrirtæki áfram fyrir því. En varðandi skattaskjól og þá umræðu þá eru þau fyrirtæki sem eru með fé á svokölluðum lágskattasvæðum ekki gjaldgeng nema þau skili þessum skýrslum. Hv. þingmaður vísar þá í fyrirtæki sem láta eins og þau séu ekki á lágskattasvæðum en misnoti þetta hugsanlega og séu í einhverju braski og komi fé eftir öðrum leiðum sem á ekki að komast upp í skattaskjól. Stofnanirnar okkar eru að glíma við þessi fyrirtæki á hverjum einasta degi og hefur sem betur fer gengið ágætlega, burt séð frá þessu frumvarpi. Það er stöðugt verið að reyna að ná utan um það í okkar samfélagi. Það hljóta allir að vera sammála um að halda eigi því áfram af fullum krafti. Það yrði ekki gott fyrir viðkomandi fyrirtæki ef upp kæmist að það hefði verið að misnota þetta úrræði og verið með ólöglega starfsemi, að þurfa að fara fyrir dómstóla og annað. Hvað yrði um það fyrirtæki, það er að brjóta lög? En ætlast hv. þingmaður virkilega til þess að við fáum skattrannsókn á hvert einasta fyrirtæki sem ætlar inn í þetta úrræði? (Forseti hringir.) Það yrði ansi svifaseint úrræði ef hvert einasta fyrirtæki ætti að fara í gegnum það nálarauga fyrir fram (Forseti hringir.) af því að það væri hugsanlega með fé í skattaskjóli.