150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar.

812. mál
[20:19]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir með hv. formanni velferðarnefndar í fyrirspurn til hæstv. ráðherra. Ég hvet ráðherra, út af því að við höfum talað mikið um þetta í nefndinni, til að tryggja að áhrifin á persónuvernd séu metin við vinnslu allra þeirra mála innan ráðuneytisins sem koma eitthvað að persónuvernd. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli, þetta eru orðin lög og við verðum að fara að framfylgja þessu. Það er dálítið leiðinlegt að vera ítrekað að fá sömu athugasemdir á borðið til okkar í velferðarnefnd um að það þurfi að gera þetta. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í persónuverndarmálum framvegis.

Mig langar kannski til að nýta tækifærið til að spyrja: Ég er bara rétt búin að renna yfir frumvarpið og þegar talað er um skilvirkari framkvæmd hefur maður alltaf smááhyggjur af því að fókusinn sé þá væntanlega, sýnist mér, á að verið sé að passa upp á að fólk sem fer á atvinnuleysisbætur sé ekki að misnota þær á einhvern hátt. Ég sé að verið er að girða fyrir það á ýmsum stöðum. Ég átti smásamtal áðan við ráðherra um hlutabótaleiðina varðandi framtíðaráform þegar kemur að atvinnuleysisbótum, hvort við þurfum ekki einmitt að auka sveigjanleika fólks á þessum mjög svo viðkvæma og erfiða tíma. Ég spyr þá hvort þörfin á því að lengja atvinnuleysistímabilið hafi eitthvað komið til tals, að fólk geti verið á atvinnuleysisbótum í lengri tíma, að lengja tekjutengda tímabilið eða hækka bæturnar á einhvern hátt til að koma til móts við fólk og líka til að slaka á þessum skilyrðum, til að auka sveigjanleika fólks og getu til að prufa sig áfram á mjög svo breyttum vinnumarkaði.